Tvö meistaramóts- og vallarmet á fyrri degi MÍ

Jóhanna Ingadóttir og Sandra Pétursdóttir, báðar úr ÍR, settu ný vallar- og meistaramótsmet í sínum greinum í dag. Jóhanna í langstökki með árangur upp á 6,17 m og Sandra í sleggjukasti 52,96 m. Árangur Jóhönnu er persónulegt met, en hún hefur verið í mikilli framför á þessu ári.
 
Fjölþrautarkonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Árm. sigraði bæði í 100 m og 100 m grindarhlaupi. Fyrri greinina sigraði hún á 12,11 sek. og grindina á 14,39 sek., en hún keppti auk þess í langstökki og 4×100 m boðhlaupi.
 
Bergur Ingi Pétursson FH náði góðum árangri í sleggjukasti og sigraði gamla methafan og liðsfélaga Guðmund Karlsson sem og þjálfaran sinn Eggert Bogason. Bergur kastaði lengst 69,78 m – reyndar í tvígang.
 
Trausti Stefánsson FH sigraði í 400 m hlaupi á tímanum 48,83 sek. eftir mikla keppni við Einar Daða Lárusson ÍR og Björgvin Víkingsson, Íslandsmethafa í 400 m grindarhlaupi. Einar Daði sigraði síðan í 110 m grindarhlaupi á 14,79 sek. en þar var Björgin í 2. sæti á 15,22 sek.
 
Ásdís Hjálmsdóttir Árm. sigraði nokkuð örgugglega í spjótkasti með 53,32 m. Liðsfélagi hennar úr Árm. Guðmundur Hólmar Jónsson sigraði spjótkast karla með 66,74 m. Mikill meðvindur gerði spjótkösturum erfitt að ná löngum köstum.
 
Þorsteinn Ingvarsson HSÞ sigraði í langstökki karla með 7,16 m eftir góða keppni við Kristinn Torfason FH sem stökk 7,08 m.
 
FH leiðir í heildarstigakeppni félaga eftir fyrri dag, en skammt á eftir er ÍR. FH hefur 20.234 stig en ÍR 19.585. FH leiðir einnig stigakeppni karla, en ÍR kvennakeppnina.
 
Öll úrslit dagsins er að finna á Mótaforriti FRÍ – fri.is

FRÍ Author