Tveir Íslendingar á HM U20

Heimsmeistaramót undir 20 ára fer fram í Nairobi, Kenýa dagana 18.-22. ágúst og eru tveir Íslendingar skráðir til leiks.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppir í undankeppni í sleggjukasti á morgun, föstudag. Hún er í fyrri kasthóp og hefst keppni klukkan 6:10 að íslenskum tíma. Elísabet tryggði sér sæti í úrslitum á EM U20 í júlí og hafnaði hún þar í sjöunda sæti. Hún er búin að kasta 64,39 metra lengst í ár sem er jafnframt Íslandsmetið í greininni. Ef miðað er við ársbestan árangur, er Elísabet skráð með fjórða besta árangurinn. 

Ég er mjög vel stemmd fyrir þessu móti og æfingar eru búnar að ganga vel hingað til. Markmiðið er að komast í úrslitin sem ætti ekki að vera mikið vesen ef ég kasta bara eins og ég hef verið að gera á öðrum mótum í sumar

Elísabet Rut

Kristján Viggó Sigfinnsson var hársbreidd frá því að komast í úrslit á EM U20 og hafnaði hann í þrettánda sæti, aðeins einu sæti frá úrslitum. Hans ársbesti árangur er 2,18 metrar sem er sjöundi ársbesti árangurinn í greininni. 

Ég er mjög spenntur að fá að keppa, æfingar hafa gengið mjög vel undanfarið en er ennþá að reyna að vinna i ökkla veseni. Aðal markmiðið er að komast i úrslit sem væri geggjað og ef það fer allt vel, væri 2.20 hæðin sem eg væri að eltast við

Kristján Viggó

Þar sem það eru aðeins fimmtán keppendur í hástökki var ákveðið að hafa enga undankeppni og keppir því Kristján til úrslita á laugardag klukkan 12:55 að íslenskum tíma.

Tímaseðil og úrslit má finna hér.

Hægt er að fylgjast með streymi hér!