Tíu verðlaun á síðasta keppnisdegi á Kýpur og 23 samtals

Kári Steinn Karlsson hlaut gullverðlaun í 10.000m hlaupi karla, en hann kom í mark á 31:13,29 mín og var tæplega 17 sek. á undan næsta manni. Kári tryggði sér þar með sín önnur gullverðlaun á leikunum, en hann vann einnig 5000m hlaupið á þriðjudaginn.
Þá vann Arndís Ýr Hafþórsdóttir til silfurverðlauna í 5000m hlaupi kvenna, hún hljóp á 17:51,37 mín. Fríða Rún Þórðardóttir varð í 4. sæti í sama hlaupi á 18:35,00 mín.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir hlaut silfur í hástökki kvenna, stökk 1,75 metra, sem er hennar besti árangur utanhúss í greininni. Ágúst Tryggvadóttir varð að gera sér fjórða sætið að góðu, stökk yfir 1,72 metra og bætti sinn besta árangur um 2 sm, en hún átti best 1,70 metra innanhúss og 1,66 metra utanhúss. Ágúst stökk sömu hæð og sú sem hlaut bronsið, en fór yfir 1,68m í annari tilraun, en sú sem hlaut bronsið fór yfir þá hæð í fyrstu tilraun.
 
Helga Margrét náði síðan bronsverðlaunum í kúluvarpi og setti nýtt stúlkna (17-18 ára)-og unglingamet (19-20 ára), þegar hún varpaði kúlunni 13,60 metra. Hún átti sjálf stúlknametið, sem var 13,21 metri, en Ásdís Hjálmsdóttir átti unglingametið, sem var 13,44 metrar. Ágústa Tryggvadóttir varð í 4. sæti og setti persónulegt met 12,46 metra.
 
Þá fékk Kristinn Torfason bronsverðlaun í þrístökki, en hann stökk 14,79 metra ( 2,3m/s). Þetta er besti árangur Kristins utanhúss, en meðvindur var aðeins yfir leyfilegum mörkum. Íslandsmet Kristin innanhúss frá því í vetur er 15,05 metrar.
 
Íslenska kvennasveitin í 4x100m boðhlaupi tryggði sér bronsverðlaun, en þær hlupu á 47,33 sek. og voru aðeins 4/100 úr sek. á eftir sveit Luxemborgar í mark. Sveitina skipuðu þær Linda Björk Lárusdóttir, Helga Margrét, Hafdís Sigurðardóttir og
Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir.
Karlasveitin varð í 4. sæti í 4x100m boðhlaupi, á 42,87 sek. Sveitina skipuðu þeir Magnús Valgeir Gíslason, Einar Daði Lárusson, Trausti Stefánsson og Kristinn Torfason.
Íslenska boðsveitin í 4x400m hlaut bronsið, en þær hlupu á 4:00,10 mín. Sveitin skipuðu þær Hrafnhild Eir, Hafdís Sigurðardóttir, Helga Margrét og Ágústa Tryggvadóttir.
Íslenska sveitin í 4x400m boðhlaupi karla kom í mark í fimmta sæti á 3:23,37 mín. Þá sveit skipuðu þeir Einar Daði, Þorbergur Ingi Jónsson, Kristinn Torfason og Björgvin Víkingsson. Í sveitina vantaði hinsvegar Trausta Stefánsson, sem á besta tíma ársins og kom Þorbergur Ingi millivegalengdahlaupari inn í sveitina í hans stað.
 
Þá er frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikana lokið og getur íslenski hópurinn verið sáttur við frammistöðuna á leikunum að þessu sinni, en alls unnust 10 verðlaun í dag. Frjálsíþróttaliðið náði því í alls 23 verðlaun á leikunum; 7 gullverðlaun, 6 silfurverðlaun og 10 bronsverðlaun. Þá bættu þau þrjú mótsmet og margir voru að bæta sinn besta árangur á leikunum.
 
Sjá nánar heimasíðu leikana: www.cyprus2009.org.cy

FRÍ Author