Tillögur um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir

Starfshópur um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir hefur skilað tillögum sínum og greinargerð til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í starfshópnum sátu fulltrúar frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, Reykjavíkurborg og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) auk fulltrúa ráðuneytisins. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshópinn síðasta vetur og var honum meðal annars falið að afla upplýsinga um þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma, greina mögulega nýtingu eldri mannvirkja eða þörf á nýjum, og skoða kostnaðarskiptingu slíkra verkefna, bæði hvað varðar mögulega uppbyggingu, rekstur og nýtingu.

Niðurstaða hópsins var ef að þjóðarleikvangur í knattspyrnu verður áfram á Laugardalsvelli þá sé framtíð best borgið á nýjum leikvangi fyrir norðan Suðurlandsbraut, austan frjálsíþróttahallar við Engjaveg. Mannvirki sem mun tengjast
núverandi frjálsíþróttahöll, öðrum íþróttamannvirkjum sem og öðrum opnum svæðum í Laugardal. Þjóðarleikvangur á þessum stað myndi verða vel nýttur af ýmsum aðilum. Fyrst er að telja alþjóðlegt keppnishald og stærri mót á vegum FRÍ og ÍF, æfingar afreksmanna, æfingar barna-, unglinga og annarra í hverfisfélögum í Reykjavík en einnig sem möguleg aðstaða fyrir afreksíþróttamiðstöð í Laugardalnum, auk rannsókna, þjálfunar og kennslu í skólum.

„Við höfum átt einstaklega gott samstarf í starfshópnum og það er gleðilegt að fram sé komin þessi sameiginlega niðurstaða. Það hefur sýnt sig undanfarin misseri hvað það er mikilvægi að frjálsíþróttafólk geti æft og keppt óháð öðrum íþróttum og viðburðum. Nú erum við með einstakt tækifæri til að tryggja það til framtíðar. Ég vil þakka Lilju Dögg Alfreðsdóttur sérstaklega fyrir hennar frumkvæði í þessu máli. Nú held ég að við séum komin góðan efnivið og kominn tími til að hefja uppbyggingu í Laugardalnum,“ sagði Freyr Ólafsson formaður FRÍ.

Skýrsla starfshópsins mun koma út á næstu dögum og verður mikilvægt innlegg í áframhaldandi vinnu vegna uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum.

Lilja Alfreðsdóttir og Freyr Ólafsson