Erna Sóley Gunnarsdóttir varpaði kúlunni lengst 14,32 metra á HM U20 í Finnlandi. Hún endaði í 14. sæti af 28 keppendum en efstu 12 fóru áfram í úrslit. Varpa þurfti kúlunni 14,56 metra til að komast í úrslit og Erna Sóley því ekki langt frá því. Glæsilegur árangur engu að síður hjá Ernu sem var að keppa meðal þeirra bestu í heiminum.

Tiana Ósk Whitworth tók þátt í undanrásunum í 100 metra hlaupi í morgun. Hún kom í mark á 11,87 sekúndum og hafnaði í sjötta sæti í sínum riðli. Fjórar fyrstu í hverjum riðli og fjórir bestu tímarnir þar á eftir tryggðu sér sæti í undanúrslitunum. Tiana hafnaði í 29. sæti af þeim 37 keppendum sem luku keppni. Gott hlaup og góð reynsla fyrir Tiönu sem mun nýtast henni á komandi árum.