Þrjár yfir sex metra í langstökki

Í dag fór fram frjálsíþróttakeppni Reykjavík International Games. Mótið var fremur óhefðbundið vegna takmarkana en keppendur og skipuleggjendur mótsins létu það ekki stöðva sig. Stigahæsta afrek mótsins í karlaflokki var kast Guðna Vals Guðnasonar en hann hlaut 1050 stig fyrir sitt lengsta kast og í kvennaflokki var það 200m hlaup Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur en hún hlaut 1045 stig fyrir sinn tíma.

Frábær langstökkskeppni

Það er ekki oft sem þrjár íslenskar konur fara yfir sex metra í langstökki en það var Hildigunnur Þórarinsdóttir úr ÍR sem sigraði eftir frábæra keppni. Hildigunnur stökk 6,07 metra og bætti sinn persónulega árangur um 28 sentimetra innanhúss. Í öðru sæti var það Blikinn Irma Gunnarsdóttir sem stökk 6,04 metra og í því þriðja var það liðsfélagi Irmu, Birna Kristín Kristjánsdóttir með 6,01 metra, en það er Íslandsmet innanhúss í 18-19 ára flokki.

Karlamegin var það hinn reyndi Kristinn Torfason úr FH sem bar sigur úr býtum en hann stökk lengst 6,96 metra. Í öðru og þriðja sæti voru það þrautakapparnir að norðan, Ísak Óli Traustason úr UMSS og Gunnar Eyjólfsson úr UFA. Ísak stökk lengst 6,74 metra og Gunnar 6,69 metra en þeir eiga báðir yfir sjö metra og því töluvert frá sínu besta. Þeir stefna á að taka fyrstu þrautina eftir tvær vikur á Meistaramóti Íslands í þraut.

Tvöfaldur sigur hjá Guðbjörgu og Kolbeini

ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson sigruðu báðar greinarnar sínar með öryggi. Guðbjörg byrjaði mótið vel með 7,58 sekúndur í 60 metra hlaupi en í öðru sæti var það Melkorka Rán Hafliðadóttir sem hljóp á 7,96 sekúndur. Í því þriðja var það Rut Sigurðardóttir á 8,18 sekúndum en þær eru báðar í FH.

Dísilvélin Kollbeinn Höður hóf keppni í 60m hlaupi og hljóp það á 6,87 sekúndum sem er annar tíminn hans undir 6,90 sekúndur á stuttum tíma. Í öðru sæti var það Skagfirðingurinn Sveinbjörn Óli Svavarsson á 7,06 sekúndur sem er við hans besta en hann er búinn að bæta sig tvívegis á tímabilinu. Í þriðja sæti var það ÍR-ingurinn Birgir Jóhannes Jónsson á glæsilegu nýju persónulegu meti, 7,07 sekúndur en hann átti áður 7,28 sekúndur. 

Í 200 metra hlaupi hljóp Guðbjörg á 24,42 sekúndur sem var jafnframt stigahæsta afrek kvenna á mótinu. Í öðru sæti var það Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH á 24,66 sekúndum og Melkorka Rán í þriðja sæti á 25,54 sekúndum. Þórdís er búin að byrja tímabilið gríðarlega vel og þessi tími er þriðji best tími hennar í greininni innanhúss. Þórdís ætlar að láta reyna á þrautina eftir tvær vikur og verður spennandi að fylgjast með henni þar. 

Í 200 metra hlaupi karla sigraði Kolbeinn á tímanum 21,69 sekúndur, Ívar Kristinn Jasonarson annar á 21,95 sekúndum og Dagur Fannar í því þriðja á nýju persónulegu meti, 22,73 sekúndur.

Guðni við 19 metrana

Guðni Valur Guðnason úr ÍR byrjaði kúluvarps keppnina vel með 18,30 metra tvisvar í röð en lengsta kastið hans var 18,81 metri. Þessi árangur var stigahæsta afrekið hjá körlunum á mótinu. Það var svo liðsfélagi hans, Kristján Viktor Kristinsson sem var í öðru sæti með kast upp á 15,66 metra og FH-ingurinn Tómas Gunnar Gunnarsson Smith sem var í því þriðja með kast uppá 15,08 metra. Guðni ætlar að fara að einbeita sér á kringluna núna, enda hans aðal grein, en hver veit nema hann kasti kúlunni eitthvað meira í vetur.

Guðni Valur

Úrslit mótsins má finna hér.