HM öldunga í frjálsum íþróttum hófst 4. september og stendur yfir til 16. september. Mótið fer fram á Spáni og eru þrír íslendingar meðal keppenda.
Stefán Hallgrímsson fékk brons í tugþraut í flokki 70-74 ára. Geoff Shaw frá Ástralíu sigraði og í öðru sæti varð Voldemar Kangilaski frá Eistlandi. Stefán hefur unnið til fjölda verðlauna og varð hann heimsmeistari í tugþraut í flokki 60-64 ára árið 2009. Einnig hefur hann orðið Evrópumeistari nokkrum sinnum og þá á Stefán Evrópumetið í greininni hjá keppendum 55 ára og eldri.
Kristján Gissurarson varð þriðji og fékk brons í stangarstökki í flokki 65-69 ára. Kristján stökk hæst 3,30 metra. Wolfgang Ritte frá Þýskalandi sigraði með stökk uppá 3,90 metra.
Fríða Rún Þórðardóttir keppti í þremur greinum. Hennar besti árangur kom í 8 km víðavangshlaupi. Þar hljóp hún á tímanum 32:59 mínútum og varð í fimmta sæti. Í 10 km götuhlaupi lögðu 50 keppendur af stað en aðeins 42 kláruðu hlaupið. Fríða Rún náði 13. sætinu þrátt fyrir erfiðar aðstæður í miklum hita og raka. Tíminn hjá henni var 42:04 mínútur. Í 5000 metra hlaupi varð hún 11. í sínum riðli og 12. í heildina á tímanum 20:04,34 mínútum. Á laugardaginn mun Fríða Rún reyna að keppa í 1500 metra hlaupi en hún hefur verið meidd síðan um miðjan júlí. Því glæsilegt hjá henni að hafa klárað þrjú hlaup á HM í erfiðum aðstæðum.
Fríða Rún er með mikla keppnisreynslu og hefur verið áberandi í íslenskum frjálsíþróttum í dágóðan tíma. Hún hefur áður keppt á HM öldunga sem og EM. Hún hefur nokkrum sinnum komist á verðaunapall til dæmis á EM utanhúss fyrra, EM innanhúss árið 2016 og HM á San Sebastian árið 2005.