Staðan á mér

Ég er búin að keppa á tveimur mótum, því fyrra í Doha þar sem ég lenti í 4.sæti og fílaði mig alveg rosalega vel og í seinna skiptið keppti ég í Saulheim þar sem gerði hreinlega óveður og keppni varð hætt. Í bæði skiptin stökk ég 4,20. Í rauninni er það voða týpísk byrjunarhæð fyrir mig og er ég bara alveg ágætlega bjartsýn á sumarið. Næstu mót eru í Regensburg þann 8.júní, í Marocco þann 13.júní og svo Evrópubikar í Tallin helgina 21.-22. júní. Ég er mjög spennt að vera að detta inní svona keppniskafla þ.s mót eru hverja helgi. Eftir hvert mót er ég alltaf svo spennt að keppa aftur að það getur reynt á þolinmæðina að bíða í fleiri vikur eftir móti.
 
Regensburg er í Þýskalandi, 500 km frá Leverkusen, þar sem ég bý. Þar munu 5 aðrir Íslendingar keppa svo það verður pottþétt mikið stuð á vellinum og ég hlakka sérstaklega mikið til þessa móts útaf því. Til Marocco hef ég aldrei komið og verður spennandi að fara til nýs lands. Það er mjög langt síðan að ég hef ferðast til lands í fyrsta skipti. Síðan er Evrópubikarinn alltaf skemmtilegur því að keppa fyrir landsliðið er einfaldlega stórkostleg upplifun og hef ég einnig aldrei komið til Eistlands
 
Það er semsagt nóg um að vera næstu vikur hjá mér og ég vona að ég geti sýnt eitthvað af því sem í mér býr. .Stefnan er svo auðvitað sett á að toppa í Pekíng um miðjan ágúst á Ólympíuleikunum. Við erum núna orðið tvö í frjálsum sem höfum náð lágmarkinu á leikana og mun líklega fjölga í þeim hópi mjög bráðlega. Að keppa á Ólympúleikum er einfaldlega upplifun sem ekki er hægt að lýsa. Pekíng verða mínir þriðju Ólympíuleikar en fyrir einhverjum árum hafði mér ekki einu sinni dottið í hug að ég gæti átt möguleika á því að upplifa stórkostlegustu íþróttaveislu sem til er, á staðnum sem íþróttamaður. Ótrúlegt!

FRÍ Author