Spennandi keppni á NM í þraut unglinga og Íslandsmet í Spjótkasti 16-17 ára

Arna Stefanía Guðmundsdóttir 16 ára úr ÍR er í fimmta sæti eftir fyrri dag sjöþrautar keppninnar í flokki 17 ára og yngri með 3013 stig. Arna setti þrjú persónuleg met í þeim fjórum greinum sem á dagskrá voru í dag. Árangur Örnu var sem hér segir: 100m grindahlaup 15,29sek-hástökk 1,64m-kúluvarp 10,40m og 200m hlaup 25,18 sek. Arna náði þriðja sæti í þessari keppni í fyrra og er nú með um 200 stigum meira en hún náði þá eftir fyrri daginn. Seinni dagur inniheldur mjög sterkar greinar hjá Örnu, langstökk, spjótkast og 800 m hlaup og því verður spennandi að sjá hvernig mun ganga hjá henni. Sofia Linde frá Svíþjóð leiðir með 3.403 stig.
 
Ingi Rúnar Kristinsson 18 ára piltur úr Breiðabliki er í 5. Sæti tugþrautarkeppninnar í flokki 18-19 ára. Ingi hefur skorað 3.473 stig og náði eftirtöldum árangri: 100m hlaup 11,48-langstökk 6,28m-kúluvarp 13,83m-hástökk 1,82m og 400m hlaup 52,42 sek. Árangur Inga í kúluvarpi og 400m hlaupi eru persónuleg met hjá honum. Ingi Rúnar náði silfurverðlaunum í flokki 17 ára og yngri í fyrra og verður fróðlegt að fylgjast með seinni deginum hjá honum en aðeins skilur að 94 stig milli Inga Rúnars og heimamannsins Juuso Hassi sem situr í 2. sæti. Norðmaðurinn Martin Roe leiðir þrautina með 3.886 stig.
 
Sveinbjörg Zophoníasdóttir, 19 ára úr ÚSÚ og María Rún Gunnlaugsdóttir 18 ára úr Ármanni standa í harðri baráttu í flokki kvenna 18-19 ára. Mikil spenna er í flokknum og jöfn keppni í gangi. Sveinbjörg hefur 2.876 stig í 7.sæti og María Rún með 2.776 í 10 sæti. Til að gefa mynd af stöðunni þá vantar aðeins 150 stig upp á að Sveinbjörg leiði þrautina að fyrri degi loknum. Báðar þessar stúlkur eiga sterkar greinar inni á seinni degi og því verður allt lagt í sölurnar á morgun.
 
Keppni hefst á morgun kl 10 á staðartíma og hægt er að fylgjast með íslensku keppendunum á heimasíðu mótsins; http://www.njcce2011.org/Results.html
 
Kveðja frá Finnlandi, Þráinn Hafsteinsson og Guðjón Ólafsson.

FRÍ Author