Spennandi fyrri dagur á MÍ

Það eru ÍR-ingar sem leiða heildarstigakeppnina eftir frábæran fyrri dag á Meistaramóti Íslands. Tvö mótsmet voru sett á mótinu en þau voru sett af spretthlaupurunum Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Kolbeini Heði Gunnarssyni. Þau sigruðu sín hlaup með yfirburðum og voru við sitt besta. Guðbjörg kom í mark á 7,49 sekúndum og Kolbeinn á 6,86 sekúndum.

Sentimetra frá mótsmeti

Bilikinn Irma Gunnarsdóttir fór á kostum í þrístökki kvenna og sigraði með glæsilegri bætingu og stökk 12,66 metra. Það er aðeins einum sentimetra frá mótsmeti Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur síðan 1996 en hún á einnig Íslandsmetið í greininni sem er 12,83 metrar. Irma bætti sig einnig um ellefu brot í 60 metra hlaupi og kom í mark á tímanum 7,80 sekúndur og hafnaði í þriðja sæti í greininni. 

Skagfirðingurinn með flottar bætingar

Ísak Óli Traustason sigraði stangarstökk karla með frábæra bætingu, 4,42m. Hann var annar í 60 metra hlaupi á langþráðri bætingu 6,96 sekúndum en þetta er í fyrsta sinn sem hann fer undir sjö sekúndur og því stór persónulegur sigur að ná þessum árangri. Hann var svo við sitt besta í kúluvarpi og varpaði henni 14,07 metra.

Gullið er best á bragðið

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason, ÍR, lét sig ekki vanta í kúluvarpi karla og varpaði kúlunni 18,40 metra. Það ásamt 60 metra hlaupi Guðbjargar Jónu eru sigahæstu afrek fyrri dagsins samkvæmt stigatöflu Alþjóða Frjálsíþróttasambandsins. 

Seinni dagurinn hefst klukkan ellefu á morgun á forkeppni í langstökki kvenna. Tímaseðil og heildarúrslitmótsins má finna hér. Við minnum á Facebook- og Instagram síðuna okkar þar sem við birtum viðtöl, myndir og fleira frá mótinu.