Sindri með brons á NM U23 í fjölþrautum

Sindri Magnússon vann í dag til bronsverðlauna í tugþraut 20-22 ára á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum. Mótið fór fram í Uppsala, Svíþjóð.

Þrír íslenskir keppendur voru skráðir til keppni í tugþraut 20-22 ára. Eftir fyrri dag var Sindri í öðru sæti, Ari Sigþór Eiríksson í þriðja sæti og Gunnar Eyjólfsson í því fjórða. Því var ljóst að spennandi keppni væri framundan á seinni keppnisdegi um verðlaunasæti.

Fyrsta grein seinni keppnisdags var 110 metra grindarhlaup. Þar varð Sindri þriðji og efstur Íslendinganna í sínu fyrsta keppnishlaupi í greininni. Næsta grein var kringlukast þar sem Ari Sigþór bætti sig verulega og kastaði í fyrsta skipti yfir 40 metra. Ari var þá kominn upp fyrir Sindra og í þriðja sætið meðan Sindri var í því fjórða.

Spennan hélt áfram í næstu greinum þar sem Sindri og Ari skiptust á að vinna hvorn annan. Ari Sigþór stökk hærra en Sindri og næst hæst allra keppenda í áttundu grein sem var stangarstökk. Í níundu grein sem var spjótkast bætti Sindri sig og kastaði 47,94 metra á meðan Ari Sigþór kastaði 42,61 metra.

Fyrir lokagrein var því allt hnífjafnt og aðeins munaði 89 stigum á Ara og Sindra. Ari Sigþór var í þriðja sæti með 5601 stig og Sindri var í því fjórða með 5512 stig. Í tíundu og síðustu grein tugþrautarinnar sem var 1500 metra hlaup, hljóp Sindri glæsilega. Hann kom fyrstur allra keppenda í mark á tímanum 4:41,55 mínútum sem er persónulegt met. Sindri tryggði sér þar með bronsið með 6183 stig. Ari Sigþór varð fjórði með 6034 stig og Gunnar Eyjólfsson varð fimmti með 5980 stig.

Heildar úrslit tugþrautar pilta 20-22 ára má sjá hér.