Seinni degi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum er nú lokið.
Sveit ÍR varð Íslandsmeistari í 4×400 metra hlaupi kvenna þegar þær komu í mark á tímanum 4:01,80 mínútur. Sveitina skipuðu Ingibjörg Sigurðardóttir, Iðunn Björg Arnaldsdóttir, Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Katla Rut Robertsdóttir Kluvers, Sara Hlín Jóhannsdóttir, Agla María Kristjánsdóttir og Kolfinna Ýr Karelsdóttir í sveit Breiðabliks urðu í öðru sæti. Hjá körlunum komu ÍR-ingar einnig fyrstir í mark á 3:26,33 mínútum. Sveitina skipuðu Þorvaldur Tumi Baldurs, Úlfur Árnason, Sæmundur Ólafs og Ívar Kristinn Jasonarson. Sveit UMSS varð önnur og sveit Breiðabliks hafnaði í þriðja sæti.
Jón Bjarni Bragason varð Íslandsmeistari í kringlukasti er hann kastaði 43,82 metra þegar hann kastaði rétt rúmum sentímetra lengra en Mímir Sigurðsson sem varð annar. Vilhjálmur Árni Garðarsson varð í þriðja sæti. Thelma Lind Kristjánsdóttir sigraði í kvennaflokki og Ásdís Hjálmsdóttir varð önnur.
Í þrístökki kvenna sigraði Hafdís Sigurðardóttir þegar hún stökk lengst 12,07 metra. Hafdís var einnig Íslandsmeistari í langstökki í gær. Í karlaflokki stökk Bjarki Rúnar Kristinsson lengst. Hans lengsta stökk var 14,19 metrar. Ragúel Pino Alexandersson varð annar á 13,25 metra og Birgir Jóhannes Jónsson stökk 13,07 og hafnaði í þriðja sæti.
Ívar Kristinn Jasonarson kom langfyrstur í mark í 400 metra grindahlaupi karla. Hann hljóp á 52,15 sekúndum og var rúmum fimm sekúndum á undan Árna Hauki Árnasyni sem varð annar og Dagur Fannar Einarsson hafnaði í þriðja sæti. Þórdís Eva Steinsdóttir vann 400 metra grindahlaup kvenna þegar hún hljóp á 62,70 sekúndum. Fjóla Signý Hannesdóttir hafnaði í öðru sæti. Sara Hlín Jóhannsdóttir varð þriðja.
Ingibjörg Sigurðardóttir sigraði í 800 metra hlaupi kvenna. Hún kom í mark á 2:20,27 mínútum. Berglind Björk Guðmundsdóttir hafnaði í öðru sæti og Iðunn Björg Arnaldsdóttir tók þriðja sætið. Í karlaflokki vann Kristinn Þór Kristinsson á 1:52:50 mínútu, Sæmundur Ólafsson varð annar og Bjartmar Örnuson hafnaði í þriðja sæti.
Andrea Kolbeinsdóttir vann 3.000 metra hlaup kvenna á 10:14,17 mínútum og Arnar Pétursson vann 5.000 metra hlaup á 15:19,40 mínútum.
Hilmar Örn Jónsson og Vigdís Jónsdóttir urðu Íslandsmeistarar í fyrra og það sama var uppi á teningnum í ár. Hilmar Örn kastaði lengst 64,21 metra sem er nokkuð frá hans besta en nóg til þess að sigra. Vilhjálmur Árni Garðarsson varð annar með kast upp á 54,92 metra og Axel Máni Steinarsson endaði í þriðja sæti. Í kvennaflokki kastaði Vigdís Jónsdóttir 58,59 metra sem er nýtt mótsmet. Elísabet Rut Rúnarsdóttir kastaði 50,80 metra og varð önnur og í þriðja sæti varð Rut Tryggvadóttir með kast upp á 43,43 metra.
Jóhann Björn Sigurbjörnsson kom fyrstur í mark í 200 metra hlaupi karla á tímanum 21,54 sekúndur. Arnar Valur Vignisson kom þar á eftir á 22,67 sekúndum og Einar Már Óskarsson varð þriðji á 22,86 sekúndum. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 23,89 sekúndum. Tiana Ósk Whitworth, sem varð Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi í hafnaði í öðru sæti á 24,37 sekúndum og eins og í 100 metra hlaupinu var það Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir sem hafnaði í þriðja sæti á 24,43 sekúndum.
Ingi Rúnar Kristinsson vann stangarstökkið. Hann stökk 4,42 metra á meðan Ari Sigþór Eiríksson stökk 4,32 og hafnaði í öðru sæti. Gunnar Eyjólfsson stökk 4,22 metra og hafnaði í þriðja sæti.
Myndir frá mótinu sem teknar voru af Gunnlaugi Júlíussyni má finna hér.