Seinni dagur á NM U20

Norðurlandamótinu19 ára og yngri lauk í dag. Í stigakeppninni sigraði lið Finnlands í kvennaflokki og Noregur í karlaflokki. Sameiginlegt lið Danmerkur og Íslands endaði í fjórða sæti í báðum flokkum.

Í gær tóku Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth fyrsta og annað sætið í 100 metra spretthlaupi og þær héldu uppteknum hætti í dag. Guðbjörg Jóna varð Norðurlandameistari 19 ára og yngri í 200 metrum á tímanum 23,49 sek. Tiana Ósk varð rétt á eftir henni á 24,00 sekúndum. Meðvindur í hlaupinu var 3,1 m/s.

Tómas Gunnar Gunnarsson Smith varð fjórði í kúluvarpi þegar hann varpaði kúlunni 16,42 metra. Elísabet Rut Rúnarsdóttir varð fimmta í sleggjukasti. Hennar lengsta kast var 54,13 metrar í sjöttu og síðustu tilraun. Í þrístökki keppti Vilborg María Loftsdóttir þar sem hún stökk 11,25 metra og varð í áttunda sæti. Sara Hlín Jóhannsdóttir bætti sig í 400 metra grindarhlaupi þegar hún hljóp á 1:05,46 mínútum og varð sjötta. Dagur Fannar Einarsson bætti sig einnig í 400 metra grindarhlaupi. Hann hljóp á 57,36 sekúndum og varð áttundi. Í þrístökki stökk Birgir Jóhannes Jónsson 13,19 metra og varð áttundi. Róbert Khorchai Angeluson keppti í spjótkasti. Hann kastaði spjótinu 48,90 metra og varð áttundi.

Sjö íslenskar stelpur komust á verðlaunapall á mótinu sem er glæsilegur árangur. Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk með gull og silfur í 100 og 200 metra spretthlaupi, Birna Kristín Kristjánsdóttir með brons í langstökki, Þórdís Eva Steinsdóttir fékk brons í 400 metra hlaupi og Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk silfur í kúluvarpi.