Sannfærandi ÍR sigur í 49. Bikarkeppni FRÍ

Keppni hófst á seinni degi í Kaplakrika í sleggjukasti. Þar sigruðu Vigdís Jónsdóttir FH í kvennaflokki á nýju mótsmeti 54,23 m og Hilmar Örn Jónsson ÍR í karlaflokki. Kastsería Hilmars var einkar jöfn og góð með öll köst yfir 60 m og 3 yfir 65 m. Lengst kastaði hann 67,26 m.
 
Kristín Birna Ólafsdóttir ÍR hóf keppni á Laugardalsvelli með glæsilegu sigurhlaupi í 100 m grind, en hún kom í mark á tímanum 13,93 sek. Meðvindur var því miður of mikill. Einar Daði Lárusson ÍR sigraði í 110 m grind eftir góða keppni við Guðmund Heiðar Guðmundsson FH. Tími Einars var 14,69 sek, en Guðmundar 15,43 sek. Haraldur Einarsson Ármanni varð þriðji á 15,89 sek. Haraldur sigraði í þrístökki með 14,34 m sem er sennilega lengsta stökk þingmanns í Evrópu og jafnvel víðar í ár.
 
Sveinbjörg Zophoníasardóttir úr FH sigraði í sinni fjórðu grein á mótinu í langsökki, 5,99 m. Dóróthea Jóhannesdóttir úr ÍR varð önnur með 5,65 m, skammt á undan Ásgerði Jönu Ágústsdóttur Norðurlandi sem stökk 5,52 m.
 
Árangur í 800 m hlaupum karla og kvenna, og reyndar í öðrum greinum líka, báru þess merki að keppendur voru að taka þátt í mörgum greinum, en hin unga og efnilega Þórdís Eva Steinsdóttir FH sigraði í kvennaflokki og Bjartmar og Bjartmar Örnuson Norðurlandi í karlaflokki.
 
Kvennasveit ÍR kórónaði daginn með sigri og Íslansmeti í 1000 m boðhlaupi, þegar sveitin kom í mark á 2 mín. 9,78 sek. Sveitina skipuðu, Dóróthea Jóhannesdóttir, Kristín Birna Ólafsdóttir, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Aníta Hinriksdóttir.

 
 
 
 

FRÍ Author