Sandra Pétursdóttir bætti íslandsmetið í sleggjukasti um 2,33 metra

Sandra Pétursdóttir ÍR bætti í dag íslandsmetið í sleggjukasti kvenna á 5. Vetrarkastmóti ÍR á kastvellinum í Laugardal. Sandra kastaði sleggjunni 54,19 metra í 4. umferð og bætti þar með met Kristbjargar Helgu Ingvarsdóttur FH um 2,33 metra, en það var 51,86 metrar frá því í ágúst á sl. ári.
 
Sandra sem verður 20 ára í ágúst á þessu ári bætti sinn besta árangur í dag um 3,29 metra, en hún átti best 50,90 metra frá því á 2. Vetrarkastmóti ÍR 14. febrúar sl., en sá árangur var jafnfram met í aldursflokkum unglinga 19-20 og ungkvenna 21-22 ára.
 
Sandra endurheimti þar með íslandsmetið, en hún bætti met Aðalheiðar Maríu Vigúsdóttur síðasta sumar þegar hún kastaði 49,97 metra. Það met bætti Kristbjörg Helga síðan á Meistaramóti Íslands 26. júlí í fyrra í 51,86 metra. Þjálfari Söndru hjá ÍR er Pétur Guðmundsson íslandsmethafi í kúluvarpi karla.

FRÍ Author