SamVest og FH semja um samstarf

„Með þessu samkomulagi semjum við um að halda samæfingar SamVest hjá frjálsíþróttadeild FH á þeirra æfingatíma og í þessari frábæru aðstöðu hér í Kaplakrika fyrir samæfingar SamVest, en við höfum komið með íþróttahópa í höfuðborgina ca. 3var á vetri" sagði Björg Ágústsdóttir frá Grundarfirði, formaður framkvæmdaráðs SamVest við undirritunina. "Frjálsíþróttadeild FH sér okkur jafnframt fyrir gestaþjálfurum á þessum æfingum í Kaplakrika. Íþróttamenn SamVest mega koma á einstaka æfingar í Hafnarfirði ef þau eru á svæðinu. Ennfremur nær þetta samstarf til nemenda af SamVest svæðinu sem eru við nám á höfuðborgarsvæðinu, en þau hafa aðgang að æfingum FH í Kaplakrika gegn sama gjaldi og FH-ingar,“ sagði Björg ennfremur. Samningurinn er gagnkvæmur og býður FH-ingum því að sama skapi uppá heimsóknir til okkar.
 
Okkar iðkendur eru margir hverjir ekki einu sinni með fasta þjálfara heima fyrir og því er gríðarlega dýrmætt að geta þó viðhaldið áhuga þeirra og ástundun í gegnum SamVest-samstarfið“ sagði Björg.
 
„Samstarf SamVest við frjálsíþróttadeild FH er gott dæmi um hvernig hægt er að vinna saman á vettvangi íþróttanna, þrátt fyrir að menn stilli sér síðan upp í keppni við önnur tækifæri. Frá því SamVest tók til starfa fyrir tæpum þremur árum höfum við líka notið liðsinnis þjálfara frá öllum félögum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa aðstoðað sem gestaþjálfarar á samæfingum á okkar starfssvæði eða fyrir sunnan. Markmið okkar á vettvangi frjálsíþróttanna eru nefnilega þau sömu; að efla íþróttina í heild, iðkendum til framfara og gleði. Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn og áhugann á okkar starfi, sem við vonumst til að njóta áfram," sagði Björg.
 
Á myndinni er hópur barna og unglinga úr SamVesthópnum, en þær Björg Ágústsdóttir og Súsanna Helgadóttir varaformaður frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu samkomulagið sl. laugardag.

FRÍ Author