Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

Stjórn og skrifstofa FRÍ vilja minna stjórnir og starfsmenn aðildarfélaga, iðkendur, þjálfara og aðra sem koma að starfi innan frjálsíþróttahreyfingarinnar að kynna sér vel þær upplýsingar sem liggja fyrir á vegum ÍSÍ, fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar, um kynferðislega áreitni og ofbeldi og einnig upplýsingar um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs https://isi.is/fraedsla/kynferdisleg-areitni-og-ofbeldi/
 
Um er að ræða m.a. leiðbeiningarbæklinga en einnig er mjög mikilvægt að sérstakur óháður klínísk menntaður starfsmaður er að störfum. Starfi samskiptaráðgjafa sinnir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, klínískur sálfræðingur, með aðsetur í húsnæði Domus Mentis- Geðheilsustöðvar. Hægt er að hafa beint samband við hana og er hún með símatíma alla þriðjudaga kl. 10-11, í síma 839-9100. Utan þess tíma er hægt að hringja í símanúmerið en ekki alltaf öruggt að ná samtali. Einnig er hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er. FRÍ vill sérstaklega benda á heimasíðu samskiptaráðgjafa https://www.samskiptaradgjafi.is/ sem er mjög ítarleg og fræðandi.
 
Íþróttafélög geta haft samband við ÍSÍ ef þau vilja fá nánari fræðslu um þetta málefni. Það skal tekið fram að ef einhver grunur er á að kynferðislegt ofbeldi hafi átt sér stað ber að tilkynna það annað hvort til barnaverndaryfirvalda eða með símtali í 112 og tilkynna í nafni félags.
 
Frjálsíþróttasamband Íslands beinir öllum innan hreyfingarinnar á þessar samskiptaleiðir enda hefur FRÍ stutt vegferð þess að óháður klínísk menntaður samskiptaráðgjafi yrði til staðar fyrir fjöldahreyfingu sem íþrótta-, ungmenna- og æskulýðshreyfingin er út um land allt. Sú ákvörðun var mikið framfaraskref og er okkur öllum innan hreyfingarinnar mikilvægur stuðningur til leiðbeiningar. Þá vill FRÍ einnig minna á, líkt og áður, á siðareglur FRÍ sem eru sá rammi sem við öll eigum að temja okkur. Siðareglurnar eiga að stuðla að því að skapa þann anda sem á að ríkja innan frjálsíþróttahreyfingarinnar. Reglurnar taka til allra starfssviða sambandsins, hvort sem er keppni, æfinga, funda eða annarra þátta í starfsemi sambandsins. http://fri.is/wp-content/uploads/2021/01/Sidareglur-FRI.pdf