Patrekur leitar að aðstoðarhlaupara

Patrekur Andrés Axelsson, blindur spretthlaupari úr Ármanni, óskar eftir að fá með sér 1-3 spretthlaupara til æfinga næsta vetur og sumar 2019. Patrekur hefur æft markvisst síðustu 3 ár með Ármanni en það eru 4 ár síðan hann missti sjónina að mestu leyti. Hann þarf aðstoðarmann til að æfa með sér spretthlaupin en er mikið til einfær með aðrar æfingar. Hann æfir 6 daga vikunnar, stundum 2x á dag, enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa og tímarnir síðasta árið farið úr 12,56s í 12,23s í 100m og úr 26,50s í 25,38s í 200m. Patrekur er metnaðarfullur og einbeittur í að ná árangri í íþrótt sinni.

Nú er leitað til þeirra frjálsíþróttamanna sem hafa getu til að hlaupa afslappað og yfirvegað hlaup á 11,60s eða hraðar til að fylgja Patreki á það stig að keppa í 100m á HM í Dubai í nóvember á næsta ári og jafnvel fara með honum þangað. Til þess þarf hann að hlaupa undir 12 sek í vor á mótum IPC-Athletics erlendis. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu ævintýri eru beðnir að hafa samband við Kára Jónsson þjálfara í síma 8208548 eða senda skilaboð á kari.jonsson1960@gmail.com.