Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fór fram í Laugardalnum í dag. Alls voru 92 keppendur skráðir til leiks frá Norðurlöndunum ásamt Færeyjum. Keppt var bæði í einstaklings- og liðakeppni í fjórum flokkum; karla- og kvennaflokki og flokki stúlkna og pilta 19 ára og yngri. Stúlkurnar hlupu 4,5 km, piltarnir 6 km, konurnar 7,5 km og karlarnir 9 km. Í liðakeppninni voru stig reiknuð út frá þremur efstu keppendum frá hverju landi fyrir sig. Í karlakeppninni voru það hins vegar fjórir efstu.
Í kvennaflokki sigraði Anna Emilie Möller frá Danmörku á tímanum 27:34 mínútum. Sjö íslenskar konur hófu keppni. Elín Edda Sigurðardóttir varð 16. á tímanum 31:09 mínútum, Íris Anna Skúladóttir varð 17. á 31:21 mínútum, Arndís Ýr Hafþórsdóttir var 18. á 31:50 mínútum, Helga Guðný Elíasdóttir varð 19. á 32:22 mínútum, Rannveig Oddsdóttir varð 20. á 32:40 mínútum og Anna Berglind Pálmadóttir varð 21. á 34:25 mínútum. Aníta Hinriksdóttir kláraði ekki hlaupið, en 20 keppendur af þeim 24 sem voru skráðir til leiks kláruðu. Í liðakeppninni sigraði Svíþjóð og urðu íslensku konurnur í fjórða sæti.
Í karlaflokki sigraði Amanuel Gergis frá Svíþjóð á tímann 28:55 mínútum. Sex íslenskir karlar voru skráðir til keppni. Hlynur Andrésson náði þar bestum árangri, 7. sæti á tímanum 29:26 mínútum. Guðni Páll Pálsson varð 23. á 32:27 mínútum, Þórólfur Ingi Þórsson varð 24. á 32:37 mínútum, Sæmundur Ólafsson varð 25. á 33:23 mínútum, Vignir Már Lýðsson varð 26. á 34:27 mínútum og Vilhjálmur Þór Svansson varð 27. á 35:18 mínútum. Í liðakeppninni sigraði Danmörk og íslenska liðið varð í fimmta sæti.
Í flokki stúlkna 19 ára og yngri sigraði Moona Korkealaakso frá Finnlandi á tímanum 16:53 mínútum. Tvær íslenskar stúlkur voru skráðar til keppni. Sara Mjöll Smáradóttir var í 15. sæti á tímanum 20:02 mínútum og í 16. sæti varð Sólrún Soffía Arnardóttir á tímanum 20:50 mínútum. Í liðakeppninni sigraði Finnland og íslensku stelpurnar urðu í fimmta sæti.
Í flokki pilta 19 ára og yngri sigraði Häkon Stavik frá Noregi á tímann, 19:57 sekúndum. Af þeim fjóru íslensku keppendum sem hófu keppni kom Daði Arnarson fyrstur í mark og varð í 16. sæti á tímanum 22:59 mínútum, Dagbjartur Kristjánsson hafnaði í 17. sæti á 23:05 mínútum og Andri Már Hannesson hafnaði í 18. sæti á 23:55 mínútum. Hlynur Ólason lauk ekki keppni en 18 keppendur kláruðu hlaupið af þeim 22 sem skráðir voru til leiks. Í liðakeppninni sigraði Noregur og Ísland varð í fimmta sæti.