Norðulandamet 16-17 ára hjá Elísabetu Rut

Byrjað er að vora hér á landi og með vorinu fylgir ögn skárra veður. Frjálsíþróttafólk landsins lætur „góðviðrið“ ekki framhjá sér fara og er byrjað að nýta hvert tækifæri til þess að kasta og hlaupa utandyra.

ÍR-ingar settu upp kastmót í Laugardalnum í gær og má með sanni segja að með því móti hafi íslenska frjálsíþróttasumarið byrjað af krafti. Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR bætti aldursflokkamet 16-17 ára í sleggjukasti með 3 kg sleggju. Hún lét sér ekki einungis nægja að bæta íslenska metið sem hún átti sjálf fyrir heldur bætti hún einnig Norðurlandametið. Elísabet kastaði 71,19 metra en fyrir hafði hún lengst kastað 66,81 metra.

Bergur Ingi Pétursson, kastþjálfari Elísabetrar, segir að þessi árangur hafi ekki komið honum mikið á óvart. Hann vissi að hún ætti þennan árangur inni en hann hafi hins vegar ekki alveg búist við þessu á fyrsta móti ársins. Þau hafa aðeins náð einni æfingu utanhúss á þessu ári og einungis kastað í búri í vetur. Aðspurður segir hann að það að kasta í búr geti hjálpað til við að einblína meira á tæknina án þess að hafa láta lengd kastsins hafa áhrif á sig. Óskandi væri þó að geta kastað utanhúss yfir stærri hluta ársins.

Vel er haldið utan um íþróttafólkið í ÍR og lætur Bergur Ingi iðkendurna sína skrifa markmið hverrar æfingar í bók og gefa sér svo einkunn eftir æfingarnar. Alls sjá þrír þjálfarar um þjálfun Elísabetar. Helgi Björnsson er umsjónarþjálfari hennar, Óðinn Björn Þorsteinsson sér um lyftingarnar og Bergur Ingi Pétursson er kastþjálfari hennar.

Stærsta mót sumarsins í aldursflokki Elísabetar er Ólympíuhátíð Evrópuæskunar sem fram fer í Azerbaidjan í lok júlí. Ekki hefur verið valið á mótið en búast má við að sjá Elísabetu meðal keppenda.

Hér að neðan má sjá myndband af kasti Elísabetar.