NM unglinga – Helga Margrét með forystu í sjöþraut og Sveinbjörg í öðru sæti

Nú er lokið keppni fyrri dags í sjöþraut á Norðurlandameistaramóti unglinga á Kópavogsvelli.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir hefur örugga forystu í sjöþraut í flokki 18-19 ára og stefnir í íslandsmet kvenna eftir mjög góðan árangur í dag. Helga hljóp 100m grindahlaup á 14,55 sek., stökk 1,71m í hástökki, varpaði kúlunni 14,05m og hljóp 200m á 24,77 sek. Helga er komin með samtals 3474 stig, sem er 166 stigum meira, en í íslandsmetsþrautinni frá því í fyrra, en þá var hún með 3308 stig eftir fyrri dag.
Helga bætti sinn besta árangur í dag í kúluvarpi og bætti um leið íslandsmet í stúlkna- og unglingaflokkum, en hún bætti eigið met í stúlkna- og unglingaflokki, sem var 13,60m (sett í Kýpur í sl. viku) og met Ásdísar Hjálmsdóttur í ungkvennaflokki (21-22 ára), sem var 13,99m frá árinu 2007.
Þá bætti Helga sinn besta árangur í 200m einnig. Það stefnir því allt í að Helga Margrét bæti íslandsmetið á morgun.
Helga hefur 336 stiga forystu á Minnu Viljanen frá Finnlandi sem er í öðru sæti eftir fyrri dag með 3138 stig.
 
Þá hefur Sveinbjörg Zophoníasdóttur staðið sig gríðarlega vel í dag og er í öðru sæti í flokki 17 ára og yngri með samtals 3066 stig. Sveinbjörg bætti sinn besta árangur í öllum fjórum greinum í dag, hún hljóp 100m grindahlaup á 15,52 sek, stökk 1,68m í hástökki, varpaði kúlunni 13,33 metra og hljóp 200m á 26,99 sek.
Jessica Bloodworth frá Svíþjóð leiðir keppnina í þessum aldursflokki með 3078 stigum og er því aðeins 12 stigum á undan Sveinbjörgu eftir fyrri dag keppninnar.
María Rún Gunnlaugsdóttir er í 8.sæti í sama aldursflokki með 2704 stig og Dóróthea Jóhannesdóttir er í 9. sæti með 2586 stig, en alls keppa 11 stúlkur í þessum aldursflokki.
 
Fjóla Signý Hannesdóttir hefur einnig staðið sig vel í sjöþrautinni í dag og er í þriðja sæti eftir fyrri dag í flokki 20-22 ára með 2738 stig. Fjóla hljóp 100m grind á 15,44 sek., stökk 1,65m í hástökki, varpaði kúlu 8,76m og hljóp 200m á 27,02 sek.
 
Það hafa skipts á skyn og skúrir á Kópavogsvelli í dag, mjög gott verður var fram yfir hádegi, en síðdegis kom úrhelli, svo að gera þurfti hlé á keppninni í stangarstökki karla um tíma.
 
Heildarúrslit eru að finna á www.mot.fri.is (NJCCE U23).
* Villa er í heildarstigatölu í flokkum 17 ára og yngri og 18-19 ára í sjöþraut, því ennþá vantar stigin fyrir kúluvarp í þessum aldursflokkum í heildarstigatölu, en það verður lagfært á eftir.

FRÍ Author