NM í frjálsum íþróttum lokið

Norðurlandamótið í frjálsum íþróttum fór fram í Noregi í dag. Á meðal keppenda var heimsklassa íþróttafólk og áttu Íslendingar sex keppendur. Ísland og Danmörk tefldu fram sameiginlegu liði gegn Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í fyrsta skipti var sýnt beint frá mótinu á netinu þar sem Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasamband Íslands, var þulur og tók viðtöl við keppendur. Heildarstigakeppnina sigraði Svíþjóð, Finnland í öðru sæti, Noregur í því þriðja og Danmörk/Ísland í því fjórða.

Hafdís, Aníta, María og Guðbjörg

Fyrst Íslendinga til að hefja keppni var Hafdís Sigurðardóttir. Fyrir hafði Hafdís stökkið lengst 6,49 metra í ár. Og ekki einu sinni heldur tvisvar. Lágmarkið inn á EM í mars er 6,50 metrar og á það hafði Hafdís sett stefnuna á þessu móti. Það tókst því miður ekki og var lengsta stökk Hafdísar 6,34 metrar. Aðeins 4 sentimetrum lengra stökk Taika Koilathi frá Finnlandi eða 6,38 metra. Hafdís lenti því í öðru sæti. Hafdís mun fá eitt tækifæri í viðbót til þess að ná lágmarki inn á EM þegar hún keppir í Laugardalshöllinni um næstu helgi.

Næst til þess að keppa var Aníta Hinriksdóttir. Aníta hljóp á tímanum 2:06,40 mínútum og varð í fjórða sæti. Fyrir hlaupið var Aníta talin sigurstranglegust og var tíminn hennar í dag nokkuð frá Íslandsmeti hennar sem er 2:01,18 mínútur. Aníta stendur í ströngu í undirbúningi fyrir EM í frjálsum sem fram fer 1.-3. mars. Hún hefur því enn þrjár vikur til þess undirbúa sig fyrir það og vonandi sjáum við hana upp á sitt besta þar.

Þórdís Eva

Í 400 metra hlaupi kvenna keppti Þórdís Eva Steinsdóttir fyrir hönd Íslendinga. Þórdís var þrátt fyrir ungan aldur að keppa á Norðurlandamótinu í þriðja skiptið. Þórdís varð í fimmta sæti á tímanum 55,78 sekúndur. Það er 20 sekúndubrotum hraðar en hún hljóp á Reykavík International um síðustu helgi en rétt tæpri sekúndu frá hennar besta árangri. Í viðtali eftir hlaupið sagðist Þórdís eiga nóg inni og vonandi fáum við að sjá bætingu hjá henni á þeim mótum sem eftir eru.

Kormákur Ari

Í 400 metra hlaupi karla áttu Íslendingar einnig sinn fulltrúa. Það var Kormákur Ari Hafliðason sem var að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti fullorðinna. Hann stórbætti sinn besta árangur og hljóp á 48,55 sekúndum. Hann endaði í sjötta sæti sem er glæsilegur árangur gegn sterkum hlaupurum. Á síðustu metrunum virtist Kormákur eiga nóg inni og sótti hart að þeim sem undan honum voru. Sigurvegarinn í hlaupinu var Karsten Warholm frá Noregi á tímanum 45,65 sekúndum. Warholm er ein besti 400 metra hlaupari í heiminum og situr hann í öðru sæti heimslistans á þessu ári.

María Rún Gunnlaugsdóttir keppti í hástökki þar sem hún bætti sinn besta árangur. María stökk yfir 1,75 metra og endaði í sjöunda sæti. Gegn henni voru frábærir hástökkvarar og bar hún Erika Kinsey frá Svíþjóð sigur úr býtum með stökk upp á 1,90 metra. María mun keppa aftur um næstu helgi á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum.

Guðbjörg Jóna

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sem er aðeins 17 ára gömul mætti til keppni í 200 metra hlaupi gegn bestu spretthlaupurum Norðurlandanna í fullorðinsflokki. Guðbjörg kom í mark á tímanum 24,19 sekúndum og endaði í áttunda sæti. Helene Rønningen frá Noregi sigraði á tímanum 23,57 sekúndum. Guðbjörg hefur bætt sig tvívegis í 200 metra hlaupi í vetur og á hún best 24,05 sekúndur.

Hér má sjá öll úrslit mótsins og verða upptökur frá mótinu væntanlegar í vikunni inn á YouTube rás Frjálsíþróttasambandsins.