MÍ innanhúss, Sveinn Elías bætti met Bjarna Stefánssonar í 400m hlaupi

Hápunktur dagsins var 400m hlaup karla, en þar bætti Sveinn Elías Elíasson Fjölni 36 ára gamalt Íslandsmet Bjarna Stefánssonar KR í 400m hlaupi, Sveinn sigraði á 48,33 sek. Met Bjarna var 48,5 sek., sett í Gautaborg árið 1972. Bjarni átti einnig skráð met með rafmagnstímatöku frá árinu 1973 í Rotterdam, 48,73 sek. Sveinn bætti sinn besta áranur í 400m hlaupi innanhúss um 67/100 úr sek. með þessum árangri, en hann átti best 49,00 sek.
Frábær árangur hjá Sveini sem verður 19 ára gamall á þessu ári.
Ragnar Frosti Frostason úr UMSS veitti Sveini góða keppni í hlaupinu, en hann varð annar á 48,82 sek. og stórbætti sinn besta árangur í greininni og var aðeins 9/100 úr sek. frá gamla meti Bjarna með rafmagnstímatöku.
 
Þá jafnaði Bjarki Gíslason eigið drengjamet í stangarstökki í dag, en hann sigraði í þeirri grein, stökk 4,40 metra.
 
Silja Úlfarsdóttir FH sigraði í tveimur greinum á mótinu í dag, 60m hlaupi og 400m hlaupi, en hún hljóp 60m á 7,73 sek. og 400m á 55,94 sek.
 
Jóhanna Ingadóttir ÍR sigraði í langstökki á persónulegu meti, stökk 5,99 metra, sem er fjóðri besti árangur frá upphafi í þeirri grein, en Íslansmet Sunnu Gestsdóttur er 6,28 metrar.
 
Íslandsmeistarar í öðrum keppnisgreinum í dag:
* 60m hlaup karla: Óli Tómas Freysson FH, hljóp á 6,97 sek.
* 1500m hlaup karla: Björn Margeirsson FH, hljóp á 3:56,64 mín.
* 1500m hlaup kvenna: Fríða Rún Þórðardóttir ÍR, hljóp á 4:40,74 mín.
* Kúluvarp kvenna: Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni, varpaði 12,94.
* Kúluvarp karla: Bergur Ingi Pétursson FH, varpaði 15,61 metra.
* Þrístökk karla: Bjarni Malmquist Jónsson Fjölni, stökk 14,46 metra.
Bjarni setti persónulegt met, en hann átti best 14,04 metra fyrir.
* Hástökk kvenna: Guðrún María Pétursdóttir Breiðabliki, stökk 1,67 metra.
 
Í stigakeppni milli félaga um Íslansmeistaratitil félagsliða, leiðir lið FH
eftir fyrri dag með 14.233 stig, lið ÍR er í öðru sæti með 10.879 stig og lið Breiðabliks er í þriðja sæti með 10.421 stig. FH hefur örugga forystu í stigakeppni karla, en lið ÍR leiðir í stigakeppni kvenna.
 
Meistaramótið hefst aftur í fyrramálið kl. 10:30 með forkeppni í 200m hlaupi karla og kvenna og langstökki karla. Aðalhluti mótins hefst svo kl. 13:00 og er síðasta keppnisgreini, 4x400m boðhlaup karla á dagskrá kl. 15:45.
 
Heildarúrslit eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni, bæði í einstökum greinum og í stigakeppni milli félaga.

FRÍ Author