MÍ í fjölþautum og lengri boðhlaupum – úrslit fyrri dags

Nú er lokið keppni á fyrri degi á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum og lengri boðhlaupum, sem fram fer í Þorlákshöfn um helgina. Í 3x800m boðhlaupi kvenna sigraði meyjasveit ÍR á tímanum 7:41,69 mín, í öðru sæti varð A-sveit ÍR og sveit Fjölnis varð í þriðja sæti. A-sveit ÍR sigraði í 4x800m boðhlaupi karla á 8:32,16 mín.
 
Ólafur Guðmundsson HSK hefur forystu í tugþraut karla eftir fyrri dag með 3038 stig og í öðru sæti er Börkur Smári Kristinsson ÍR aðeins 22 stigum á eftir Ólafi með 3016 stig.
 
Ágústa Tryggvadóttir Umf.Selfoss hefur nokkuð örugga forystu í sjöþraut kvenna, er komin með 2665 stig. Í öðru sæti er stalla hennar úr Umf.Selfoss með 2320 stig.
 
Bjarki Már Ólafsson HSK hefur forystu í tugþraut drengja með 2623 stig og Kristján Viktor Kristinsson Breiðabliki er efstur í sveinaflokki með 2614 stig. María Rún Gunnlaugsdóttir Ármanni er með forystu í sjöþraut meyja, hefur hlotið 2439 stig eftir fyrri dag. Seinni keppnisdagur hefst í fyrramálið kl. 10:00
 
Hægt er að skoða úrslit dagsins í mótaforritinu hér á síðunni; www.mot.fri.is

FRÍ Author