MÍ í fjölþrautum og 10.000m um helgina

Um helgina, 24.-25. júlí fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum og 10.000 metra hlaupi á braut. Mótið fer fram á Kópavogsvelli og hefst keppni í fjölþrautum klukkan hálf tíu á laugardag. 

Í fyrra var það Benjamín Jóhann Johnsen úr ÍR sem sigraði tugþrautina og Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH sem sigraði sjöþrautina.

Það eru fjórir skráðir til leiks í tugþraut karla. Það er Blikinn Ingi Rúnar Kristinsson sem er skráður með besta árangurinn en þetta mun vera hans fyrsta þraut í þrjú ár. Hans besti árangur í greininni er 7156 stig. Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason er á meðal keppenda og átti frábæra sjöþraut á innanhúss tímabilinu þar sem hann bætti sinn persónulega árangur í 5355 stig. Hans besti árangur í Tugþraut er 7007 stig. Ásamt þeim keppa þeir Reynir Zoega úr ÍR og Andri Fannar Gíslason úr KFA.

Í sjöþraut kvenna eru tvær konur skráðar til leiks og meðal þeirra er Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH sem sigraði keppnina í fyrra. Þá hlaut hún 4718 stig sem er hennar besti árangur í greininni. Kristín Birna Ólafsdóttir-Johnson úr ÍR er einnig skráð til leiks.

Í unglingaflokki eru þær Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA og Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki skráðar til leiks. Þessar ungu og efnilegu stúlkur eru báðar búnar að eiga frábært tímabil og bættu meðal annars aldursflokkamet í 100 metra grindahlaupi í sínum aldursflokkum. Glódís á best 4777 stig og verður þetta fyrsta sjöþraut Júlíu.

Hjá piltunum verður skemmtilegt einvígi milli Dags Fannars Einarssonar úr ÍR og Birni Vagns Finssonar úr UFA í 18-19 ára flokki. Dagur á best 6755 stig en þetta er í fyrsta sinn sem Birnir keppir í þessum aldursflokki. Hinn ungi og efnilegi Markús Birgirsson er eini keppandinn skráður í 16-17 ára flokki en hann sigraði meðal annars sjöþrautina innanhúss.

Keppni í 10.000 metra hlaupi á braut hefst klukkan 12:30 á sunnudag hjá körlunum og 13:20 hjá konunum. 

Það eru sjö keppendur skráðir í 10.000 metra hlaupi á braut. Það var Arnar Pétursson úr Breiðabliki sem sigraði keppnina í fyrra og er hann skráður til leiks um helgina. Ásamt honum keppa þeir Stefán Kári Smárason úr Breiðabliki, Þórólfur Ingi Þórsson og Hlynur Ólason sem keppa báðir fyrir ÍR

Það eru þrjár konur eru skráðar til leiks. Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir úr UFA og Íris Dóra Snorradóttir úr FH.

Tímaseðil og úrslit má finna hér.