Metaregn á Áramóti Fjölnis í dag

Þau met sem bætt voru í dag:
* Aníta Hinriksdóttir ÍR bætti eigið met í 800m hlaupi stelpna 11-12 ára, hljóp á 2:32,62 mín.
* Stefanía Valdimarsdóttir Breiðabliki bætti eigið met í 200m hlaupi telpna 13-14 ára um 16/100 úr sek. þegar hún hljóp á 26.62 sek. Helga Margrét Þorsteinsdóttir USVH sigraði á 25.58 sek.
* Snorri Sigurðsson ÍR bætti sveinamet Björns Margeirssonar í 1000m hlaupi þegar hann hljóp á 2:40,06 mín.
* Bjartmar Örnuson UFA bætti unglingamet Sveins Margeirssonar í 1000m hlaupi, en hann hljóp á 2:37,23 mín. Bæði þessi met voru frá árinu 1995, sett í Kaplakrika.
* Karlasveit FH bætti metið í 4x200m boðhlaupi karla, en þeir hlupu á 1:29,73 mín, en gamla metið átti drengjasveit ÍR frá því á MÍ 15-22 ára á þessu ári (1:35,82 mín).
* Drengjasveit ÍR varð í öðru sæti í hlaupinu í dag á 1:30,54 mín og bættu þeir því eigið drengjamet og um leið metin í flokkum unglinga 19-20 ára og ungkarla 21-22 ára.
* Kvennasveit FH bætti að lokum metið í 4x200m boðhlaupi kvenna, en sveitin hljóp á 1:46,93 mín og bætti met stúlknasveitar ÍR frá því fyrr á þessu ári, en það var 1:50,28 mín.
 
Þá náðist góður árangur í öðrum greinum m.a. sigraði Trausti Stefánsson FH í 200m hlaupi á 22.15 sek. sem er hans langbesti árangur í greininni og annar besti árangur frá upphafi í þeirri grein, aðeins Íslandsmet Sveins Elíasar Elíasarsonar Fjölni 21,85 sek. er betra. Trausti bætti einnig árangur sinn í 60m hlaupi, en hann hljóp á 7.13 sek. Óli Tómas Freyssson FH sigraði á sama tíma, 7.13 sek.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir USVH sigraði í 60m hlaupi kvenna á 7.88 sek. og í 60m grindahlaupi kvenna á 9.18 sek. sem er hennar besti árangur í þeirri grein.
Þá stökk Guðrún María Pétursdóttir Breiðabliki 1,70 metra í hástökki, en hún á best 1,71 metra frá því á Jólamóti ÍR fyrir viku síðan.
Hafdís Sigurðardóttir HSÞ sigraði í langstökki kvenna, stökk 5,58 metra og Bjarni Gíslason UFA stökk 4,10 metra í stangarstökki, sömu hæð og Gauti Ásbjörnsson UMSS.
 
Heildarúrslit frá mótinu eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.

FRÍ Author