Metabætingar í stangarstökki á Laugum, Bjarki stökk 4,68m

Góður árangur náðist í stangarstökki á Júlímóti HSÞ á Laugum sl. föstudag og féllu metin í fjórum aldursflokkum unglinga í stangarstökki. Bjarki Gíslason UFA bætti eigin árangur og met í þremur aldursflokkum unglinga þegar hann vippaði sér yfir 4,68 metra, en gamla metið hans var 4,64 metrar, sett í Gautaborg fyrir hálfum mánuði.
Þetta er því nýtt íslandsmet í drengjaflokki 17-18 ára, unglingaflokki 19-20 ára og ungkarlaflokki 21-22 ára, en Bjarki verður 18 ára á þessu ári. Þetta er fimmti besti árangur íslensks stangarstökkvara frá upphafi, en í fjórða sætinu situr þjálfari Bjarka, Gísli Sigurðsson með 4,80 metra og er ekki ólíklegt að það sé næsta markmið Bjarka að stökkva hærra en þjálfarinn gerði á sínum tíma, eða fyrir réttum 23 árum.
 
Þá bætti Gísli Brynjarsson Breiðabliki eigið íslandsmet í flokki sveina 15-16 ára um 2 sm, þegar hann stökk yfir 3,92 metra, en gamla metið setti hann á MÍ í fjölþrautum í maí.
 
Þá stökk Gauti Ásbjörnsson UMSS 4,48 metra, Guðjón Ólafsson Breiðabliki stökk 4,20 metra og Þorsteinn Ingvarsson HSÞ stökk 4,06 metra.
 
Heildarúrslit frá Júlímóti HSÞ eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.
 

FRÍ Author