Sjöþrautarstúlkan Arna Stefanía Guðmundsdóttir sigraði í fjórum greinum í 16-17 ára flokki stúlkna og bætti sig í öllum fjórum greinunum stökk 5,77m í langstökki, hljóp 60m á 7,90 sek, 200m á 15,15 sek og 60m grindahlaup á 9,29 sek.
Sveinbjörg Zophoníasdóttir USÚ sigraði í langstökkinu, stökk 5,88 m. Í öðru sæti var Hafdís Sigurðardóttir HSÞ sem stökk 5,79 m. Sveinbjörg svaraði hér fyrir sig frá því í síðustu viku, þegar Hafdís tók sigurinn í síðasta stökkinu á RIG mótinu. Sjöþrautarkonan Kristín Birna Ólafsdóttir ÍR hljóp á góðum tíma í 60m grindahlaupi 8,79 sek.
Keppnin fór að sjálfsögðu fram í Laugardalshöllinni við heimsklassa aðstæður. Á laugardagsmorgun var keppt bæði í frjálsíþróttahöllinni og í gömlu Laugardalshöllinni samtímis. Í gamla salnum fór fram keppni í flokkum 10 ára og yngri í svokallaðri þrautabraut sem er nýtt alþjóðlegt keppnisfyrirkomulag fyrir yngstu aldursflokkana. Alls var keppt á 20 stöðvum í þrautabrautinni og á sama tíma keppa 11 ára og eldri í frjálsíþróttahöllinni á 8 stöðvum. Þegar mest lét var keppt á 28 stöðvum í Laugardalshöllinni samtímis á laugardagsmorgun.
Keppendur vou samtals 705 frá 25 félögum víðs vegar að af landinu. Um 120 sjálfboðaliðar komu að framkvæmd mótsins um helgina.
Færeyingar fjölmenntu á mótið en 30 keppendur koma þaðan. Keppt er í aldursflokkum 8 ára og yngri og upp í fullorðinsflokka. Alls störfuðu um 120 manns við framkvæmd mótsins á vegum ÍR. Stórmót ÍR er eins og undanfarin ár það stærsta sem haldið í frjálsíþróttum innanhúss ár hvert á Íslandi.
Öll úrslit á mótinu eru hér.