Meistaramót Íslands um helgina

 
Meðal afreksmanna sem keppa eru Þorsteinn Ingvarsson HSÞ sem nýlega stökk 7,79m í langstökki og sigraði á stóru alþjóðlegu móti í Gautaborg, sjöþrautarkonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni sem keppir á HM unglinga og EM seinna í sumar, kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson FH sem hefur ítrekað kastað yfir 19m í vor, Kristín Birna Ólafsdóttir ÍR 400m grindahlaupari sem sigraði þá grein í Evrópubikarkeppninni á Möltu í síðasta mánuði og Bergur Ingi Pétursson FH Íslandsmethafi í sleggjukasti. Öll hafa þau náð lágmörkum til keppni fyrir EM sem fram fer í Barcelona seinna í sumar.
 
Þá verða meðal keppenda Kristinn Torfason langstökkvari og spretthlaupari úr FH, Jóhanna Ingadóttir þrístökkvari úr ÍR, Hulda Þorsteinsdóttir stangarstökkvari úr ÍR og Sveinbjörg Zophaníasdóttir sjöþrautarkona sem báðar keppa á HM unglinga seinna í sumar, Sandra Pétursdóttir Íslandsmethafi í sleggjukasti kvenna og Guðmundur Hólmar Sigurðsson Ármanni sem sigraði óvænt í spjótkasti í Evrópubikarkeppni landsliða á Möltu fyrr í sumar. Gera má ráð fyrir hörku keppni í spretthlaupum karla og kvenna þar sem Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR, Hafdís Sigurðardóttir HSÞ, Linda Björk Lárusdóttir Breiðabliki, Dóróthea Jóhannesdóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir báðar úr ÍR munu berjast í kvennaflokki. Í karla spretthlaupum má gera ráð fyrir að Kristinn Torfason og Óli Tómas Freysson úr FH, Magnús Valgeir Gíslason og Arnór Jónsson báðir úr Breiðabliki berjist um toppsætin í 100m og 200m og fái keppni frá Birni J. Þórssyni ÍR og Þorsteini Ingvarssyni HSÞ og upprennandi Kolbein Þorbergssyni úr Fjölni. Í millilengda og langahlaupum verður Kári Steinn Karlsson Íslandsmethafi í 5000m öflugur og færa keppni frá Sigurbirni Árna Arngrímssyni HSÞ, Þorbergi Inga Jónssyni ÍR, Stefáni Guðmundssyni Breiðablik, Snorra Sigurðssyni ÍR og síðast en ekki síst Birni Margeirssyni FH sem lítið hefur keppt í sumar.
 
Keppt er um titilinn Íslandsmeistari félagsliða í karla og kvennaflokki og samanlagðri stigakeppni. Skráðir keppendur eru 178 frá 13 félögum og samböndum. Mótshaldararnir ÍR-ingar senda fjölmennasta liðið til mótsins eða 61 keppanda, FH-ingar senda 29 keppendur og Breiðablik 21 en þessi félög hafa á undanförnum árum verið í efstu sætum í stigakeppni mótsins. ÍR-ingar eiga titil að verja í kvennaflokki og samanlögðum stigum en FH-ingar sigruðu í karlaflokki í fyrra.
Dagskrá mótsins og nánari upplýsingar um keppendur
 
Forkeppni hefst kl. 11:15 á laugardag og úrslitakeppni kl. 13:30 og líkur kl. 16:30. Á sunnudeginum hefst undankeppni kl. 12:00 og úrslitakeppni kl. 12:30 í sleggjukasti kvenna en meginhluti mótsins hefst kl. 13:30 og stendur yfir til 15:50 þegar Íslandsmeistarar félagslið í frjálsíþróttum verða krýndir. Aðgangur er ókeypis fyrir áhorfendur. Nánari upplýsingar um tímasetningar, keppendaskrá og úrslit á mótaforriti FRÍ hér.
 
Meistaramótið er að þessu sinni haldið í umsjá ÍR-inga á Laugardalsvelli. Upplýsingar: Margrét Héðinsdóttir formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR s:821-2172 og Jóhannes Baldursson mótsstjóri s:856-2762.
 

FRÍ Author