Meistaramót Íslands haldið í Laugardalshöll um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fer fram í Laugardalshöll um helgina. Mótið verður snarpt og skemmtilegt að vanda og tækifæri til að sjá góða frjálsíþróttakeppni með eigin augum!

Keppnin hefst með undanúrslitum og forkeppni í fyrramálið klukkan 11:00. Keppt verður til úrslita í stangarstökki klukkan 12:00 og í öðrum greinum frá 13:00. Tímaseðil má sjá á vefnum hér.

Nú hafa þær báðar Aníta Hinriksdóttir (ÍR) og Arna Stefanía Guðmundsdóttir (FH) náð lágmörkum til keppni á EM í Belgrad og munu sitja hjá í keppni helgarinnar. Fyrir þá sem ekki hafa enn náð lágmarki er líklegt að mótið sé síðasta tækifæri til að sanna sig. Því mun án vafa Kristinn Torfason (FH) sem stökk mjög vel í langstökkskeppni RIG og þeir ÍR-ingar Þorsteinn Ingvarsson, langastökkvari og Ívar Kristinn Jasonarson 400m hlaupari, gera allt sem þeir geta til að ná inn á EM.

Ótal margt fleira verður gaman að sjá. Sem dæmi má taka fjölmennustu greinarnar, 60m hlaup karla, þar sem 32 munu berjast um sigurinn og 200m og 60m hlaup kvenna þar sem 24 stúlkur eru skráðar til leiks.

Samhliða mótinu fer fram Íslandsmót ÍF í frjálsíþróttum. Þar verður sömuleiðis skemmtileg keppni sem óhætt er að mæla með. Dagskrá Íslandsmóts ÍF má sjá hér.

Þinn stuðningur skiptir máli, fjölmennum í höllina!