Markmiðið að komast í 7000 stig

Dagur Fannar Einarsson keppir fyrir Selfoss og er efnilegur þrautarkappi. Hann varð Íslandsmeistari í sjöþraut 18-19 ára í vetur og í tugþraut 18-19 ára síðasta sumar. Hann á eitt aldursflokkamet í fimmtarþraut 15 ára pilta með sveinaáhöld.

Sigur á fyrsta mótinu

Dagur Fannar byrjaði að æfa frjálsar árið 2013 þegar pabbi hans dró hann á lítið innanfélagsmót. Þar keppti hann í 600 metra hlaupi og endaði á því að vinna hlaupið. Eftir það var hann beðinn um að keppa á Meistaramótinu þar sem hann keppti í sömu grein og vann aftur. Í kjölfarið fór hann að æfa frjálsar með Þór í Þorlákshöfn. 

Aðspurður um það hvenær hann hafi byrjað að æfa þraut segir hann: „Ætli það hafi ekki verið árið 2017 sem ég byrjaði að pæla í þrautinni. Ég var í rauninni ekkert búinn að pæla í henni áður, en mér einhvernveginn langaði til að æfa allt þannig að úr því varð að æfa bara tugþraut og sé ég ekki eftir því.“

Með Halla bróður í bústörfum

Dagur segir að æfingar hjá sér hafi gengið vel í vetur. „Æfingarnar hafa gengið vel sérstaklega þegar maður er heill og ómeiddur, það er alltaf hægt að æfa hvort sem það er í hóp eða einn með prógramm frá þjálfara.“

Þegar Dagur er ekki á æfingum þá er hann nánast öllum stundum hjá Halla bróður í bústörfum, þar segir hann að sé langbest að vera. En bróður Dags er Haraldur Einarsson, fyrrum Íslandsmeistari í 60 metra spretthlaupi, en er núna bóndi rétt fyrir utan Selfoss. 

Markmiðið að komast í 7000 stig

„Markmiðið mitt í sumar er að standa mig sem best á Meistaramóti Íslands fullorðinna og komast í 7000 stig í þrautinni,“ segir Dagur. Hann hafi einnig ætlað sér að komast á NM í þraut og NM U20 en þau mót féllu bæði niður.

Fyrir mót segist hann ekki hafa neina sérstaka rútínu en reynir sérstaklega að hvíla vel, sofa vel og borða vel. Hann hvíli tveimur dögum fyrir mót og taki stutta æfingu degi fyrir mót. Reynir að einblína ekki bara á keppnina og halda hausnum í lagi.

Sjöfaldur Íslandsmeistari í 15 ára flokk

Árið 2017 keppti Dagur Fannar í flokki 15 ára pilta. Það ár varð hann sjöfaldur Íslandsmeistari og segir hann að það sé eftirminnilegasta atvikið á ferlinum. Hans stærsta fyrirmynd í íþróttinni sé Usain Bolt en einnig sé það Halli bróður sinn. 

Aðspurður um ráð til yngri iðkenda segir hann: „Muna það að æfingin skapar meistarann og ekki byrja að sérhæfa sig of fljótt í neinu, æfa samviskusamlega og hafa gleðina í fyrirrúmi.“

Dagur Fannar á Bikarkeppni FRÍ 2019