Ellefta Mótaraðarmót FRÍ fer fram í Kaplakrika í Hafnarfirði á morgun miðvikudaginn 14. ágúst og hefst kl. 17:30. Af fimmtá greinum sem keppt verður í stefnir í að spennan verði mest í einvígi okkar besta langstökkvarapars í kvennaflokki frá upphafi en sú keppni byrjar kl. 18:00. Í langstökkskeppninni mætast þær Hafdís Sigurðardóttir (UFA) Íslandsmethafi ( 6,36m) og Sveinbjörg Zophoníasdóttir (FH) methafi í flokki 20-22ára (6,27m) og því keppnin mjög spennandi, enda báðar hörku keppnismenn sem gera tilkall til þess að vera bestu langstökkvara Íslandssögunnar. Sveinbjörg bætti árangur sinn í sjöþraut verulega í sumar og er í fínu formi og Hafdís hefur farið mikinn á hlaupabrautinni í sumar og jafnframt jafnað Íslandsmet sitt langstökki í tvígang á þessu sumri (6,36m). Metið átti Sunna Gestsdóttur sem var 6,30m sett á Möltu 2003.
Þá mun sleggjukast Hilmars Jónssonar með karlasleggjunni bera hátt á mótinu þar sem hann mun freista þess að bæta nýlegt Íslandsmet sitt með karlasleggjunni 60,98m, en sá árangur skaut honum á topp evrópska listans í sleggjukasti með 7,26kg sleggju í flokki 17 ára pilta. Einstaklega efnilegur kastari þar á ferð sem gaman verður að fylgjast með morgun. Hilmar er á förum til Finnlands á NM 20 ára og yngri í 16 manna hópi glæsilegra íslenskra frjálsíþróttamanna sem gaman verður að fylgjast með um helgina í keppni við frændur okkar á Norðurlöndunum.
Velkomin í Kaplakrika miðvikudaginn 14. ágúst – frjálsa á fullri ferð