Kristinn með gull í langstökki, Björgvin og Óðinn með bronsverðlaun

Nú stendur yfir annar keppnisdagur á Smáþjóðaleikunum á Kýpur og íslensku keppendurnir hafa þegar fengið þrenn verðlaun. Kristinn Torfason stóð sig gríðarlega vel í langstökkinu og vann til gullverðlauna og stórbætti sinn besta árangur, stökk lengst 7,60 metra ( 2,4m/s) og 9 sm lengra en næsti maður. Meðvindur var aðeins yfir leyfilegum mörkum í tveimur lengstu stökkum Kristins, næstlengsta stökk hans var 7,46m ( 2,6m/s) og þriðja lengsta var 7,31m ( 1,3m/s). Kristinn hefur lengst stokkið 7,45m innanhúss og 7,17m utanhúss.
 
Óðinn Björn Þorsteinsson hlaut bronsverðlauna í kringlukasti, kastaði 54,11 metra og Bergur Ingi Pétursson sleggjukastari varð í 4. sæti með 46,21 metra. Apostolos Parellis frá Kýpur sigraði og bætti mótsmet Vésteins Hafsteinssonar í leiðinni, kastaði 60,55 metra.
 
Björgvin Víkingsson náði sér ekki á strik í 400m grindahlaupi, en náði þó þriðja sæti og bronsverðlaunum, en hann kom í mark á 53,79 sek. Íslandsmet Björgvins frá sl. ári er 51,17 sek.
 
Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð í 4. sæti í 1500m hlaupi, hljóp á 4:44,98 mín, sem er um sex sek. frá hennar besta tíma. Stefán Guðmundsson lauk ekki keppni í 3000m hindrunarhlaupi vegna meiðsla.
 
Nú stendur yfir keppni í langstökki kvenna og hefur Jóhanna Ingadóttir forystu eftir tvær umferðir, er búin að stökkva 5,97 metra.
 
Sjá nánar: www.cyprus2009.org.cy

FRÍ Author