Kolbeinn og Guðbjörg við sitt besta

Í Kaplakrika í dag fór fram 8. Origo mót FH í frábæru veðri og við góðar aðstæður. Á mótinu bætti Vigdís Jónsdóttir Íslandsmet sitt en nánar má lesa um það hér. Á dagskránni voru sautján keppnisgreinar og ágætis fjöldi keppenda í flestum greinum.

Kolbeinn Höður fimm brotum frá sínu besta

Í 100 metra hlaupi karla sigraði Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH. Kolbeinn átti frábært innanhúss tímabil í vetur þar sem hann bætti Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi. Hann sýndi það aftur í dag að hann sé í góðu formi og átti flott hlaup. Hann kom í mark á 10,63 sekúndum sem er einungis 5/100 úr sekúndu frá hans besta árangri. Meðvindur í hlaupinu var 2,0 m/s sem er alveg við leyfileg mörk.

Annar í mark í sama hlaupi varð Dagur Andri Einarsson, ÍR, á 11,06 sekúndum og þriðji varð Ólíver Máni Samúelsson, Ármanni, á 11,07 sekúndum. Ólíver keppti einnig í 200 metra hlaupi þar sem hann kom í mark á nýju persónulegu meti, 22,46 sekúndum. Meðvindur var 1,9 m/s.

Kolbeinn keppti einnig í 60 og 150 metra hlaupi sem eru óhefðbundnar vegalengdir. Í 60 metra hlaupinu varð hann á 6,98 sekúndum í 1,6 m/s meðvind og í 150 metrunum kom hann í mark 15,99 sekúndum í ólöglegum meðvind, 2,4 m/s.

Kolbeinn Höður

Sterk keppni frá Hollandi

Í 100 og 200 metra hlaupi kvenna fengu þær íslensku sterka keppni frá Naomi Sedney frá Hollandi. Naomi varð Evrópumeistari í 4×100 metra boðhlaupi árið 2016 og keppti á Ólympíuleikunum sama ár. Hún kom fyrst í mark í bæði 100 og 200 metra hlaupinu á 11,37 sekúndum (+2,2 m/s) og 23,44 sekúndum (+3,8 m/s).

Önnur í báðum hlaupunum varð Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sem á Íslandsmetið í báðum greinum. Í 100 metra hlaupinu kom hún í mark á 11,64 sekúndum sem er rétt frá Íslandsmeti hennar sem er 11,56 sekúndur. Hlaupið var þó rétt svo ólöglegt þar sem meðvindur var 2,2 m/s en leyfilegur vindur er 2,0 m/s. Þriðja var Tiana Ósk Whitworth, ÍR, á 11,92 sekúndum en hennar besti árangur er 11,57 sekúndur sem var Íslandsmet í um tvær klukkustundir.

Í 200 metra hlaupinu var Guðbjörg Jóna á 23,96 sekúndum og þriðja var Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, á 24,44 sekúndum.

Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk

Í þrístökki kvenna stökk Hekla Sif Magnúsdóttir, FH, 12,08 metra en einungis níu íslenskar konur hafa stokkið fyrir 12 metra. Stökkið var því miður ekki löglegt þar sem meðvindur var rétt svo yfir löglegum mörkum eða 2,1 m/s.

Keppt var í 1000 metra hlaupi sem er ekki hefðbundin keppnisgrein. Þar kom hin þrettán ára Ísold Sævarsdóttir úr FH fyrst í mark á 3:05,58 mínútum. Besti árangur sem skráður er í hennar aldursflokki í greininni er frá árinu 1981. Þá hljóp Linda Björk Loftsdóttir á 3;18,9 mínútum og því var Ísold að bæta þann árangur töluvert.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.