Kids Athletics í Flúðaskóla

Ég var með krakkana í þessu í eina viku þannig að hver hópur fékk eina-tvær kennslustundir í Kids Athletics. Ég lét þau byrja á því að taka útihlaup. Næst skipti ég þeim í 4 lið og lét þau fara í boðhlaup með sams konar fyrirkomulagi og er í bókinni sem fylgir. Þ.e. allir eru virkir og leikurinn gengur út á að safna boltum og setja í sína fötu. Þetta virkaði mjög vel. Eftir þetta hafði ég ekki meiri keppni, heldur leyfði krökkunum að prufa sig áfram á 4 stöðvum; grindahlaup, spjótkast (skutlukast), kringlukast og stangarstökk. Ég ákvað að velja þessar greinar þar sem þær hafa ekki verið kenndar af mér áður en þarna sá ég tilvalið tækifæri með aðstoð kids athletics. Það er skemmst frá því ð segja að þetta heppnaðist mjög vel. Krökkunum þótti þetta mjög spennandi og erfiðast var að fá þau til að hætta og koma þeim í teygjuæfingar og síðar sturtu. Ástæðan fyrir að ég hafði ekki meiri keppni milli liða var sú að ég vildi frekar kenna þeim greinarnar fyrst, en eftir þennan tíma væri hæglega hægt að framkvæma keppni ef farið væri í sams konar braut aftur.

Ef ég ætti að benda á einhverja galla myndi ég segja að í mínu tilviki er íþróttahúsið með minnsta móti, í stærra húsi væri hægt að hafa fleiri greinar í gangi í einu og það myndi gera þessu fyrirkomulagi enn betri skil.

Heilt yfir var upplifunin sem ég og nemendur Flúðaskóla fengum af þessari skemmtilegu nýjung afar jákvæð og mæli ég eindregið með því að Frjálsíþróttasambandið haldi áfram þeirri góðu vinnu sem það er augljóslega að vinna með þessu fyrirkomulagi.

Þakka kærlega fyrir að hafa fengið þessa sendingu, þetta var bæði fróðlegt og skemmtilegt.

Bestu kveðjur,

Árni Þór.

FRÍ Author