Jóhanna og Kristinn í 2. sæti í langstökkinu á danska meistaramótinu 5

Danska meistaramótinu í frjálsíþróttum lauk í Skive í gær. Sex íslenskir íþróttamenn kepptu á mótinu um helgina.
Í gær urðu þau Jóhanna Ingadóttir ÍR og Kristinn Torfason FH í 2. sæti í langstökki, Jóhanna stökk lengst 5,72 metra og Kristinn stökk 6,80 metra. Hafdís Sigurðardóttir HSÞ kom næst á eftir Jóhönnu í langstökkinu í þriðja sæti, stökk lengst 5,65 metra. Þá varð Arndís María Einarsdóttir Breiðabliki í 3. sæti í 400m hlaupi á 60,54 sek. og Bjartmar Örnuson UFA hljóp sömu vegalengd á 51,61 sek. og varð í 8. sæti.
 
Á laugardaginn hafi Jóhanna sigrað í þrístökki, Linda Björk Lárusdóttir varð önnur í 60m grindahlaupi og Hafdís Sigurðardóttir náði 3. sæti í 200m. Linda náði síðan 3. sæti í 60m hlaupinu í gær. Þannig að íslensku keppendurnir sex komust því alls átta sinnum á verðlaunapall á danska meistaramótinu.
 
Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem Danir halda innanhússmeistaramótið í Danmörku, en mörg undanfarin ár hafa þeir haldið mótið í Malmö hinum megin við Eyrarsundið í Svíþjóð. Keppt var bæði í unglinga- og fullorðinsflokkum á mótinu. Á mótinu vakti 15 ára sveinn athygli fyrir góðan árangur í hástökki, en hann sigraði í karlaflokki, vippaði sér yfir 2,11 metra.

FRÍ Author