Jóhanna og Kári Steinn með gullverðlauna í þrístökki og 5000m

Jóhanna Ingadóttir sigraði þrístökkskeppni kvenna á Kýpur og stökk yfir gildandi íslandsmeti kvenna, en meðvindur var örlítið yfir leyfilegum mörkum, eða 2,04m/s og árangurinn fæst því ekki staðfestur sem íslandsmet. Jóhanna stökk lengst 13,26 metra, sem er átta sentimetrum yfir íslandsmeti Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur HSK frá árinu 1997. Meðvindur má ekki vera meiri en 2,0m/s til að met fáist staðfest.
Þetta er leikjamet hjá Jóhönnu, en gamla metið var 12,89 metrar.
Næstlengsta stökk Jóhönnu var 12,75 metrar (2,00m/s). Hún sigraði þrístökkskeppnina með yfirburðum, en sú sem varð í öðru sæti stökk 12,54 metra. Ágústa Tryggvadóttir varð í 5. sæti, stökk 11,99 metra.
 
Kári Steinn Karlsson vann 5000m hlaup karla með yfirburðum, en hann kom í mark á 14:45,71 mín og 21 sek. á undan öðrum manni í mark. Stefán Guðmundsson tók ekki þátt í 5000m hlaupinu vegna smávægilegra meiðsla, en hann keppir í 3000m hindrunarhlaupi á fimmtudaginn.
 
Kristinn Torfason stórbætti sinn besta árangur í 100m hlaupi, þegar hann varð í 6. sæti í úrslitahlaupinu áðan á 10,95 sek.( 1,2m/s). Magnús Valgeir Gíslason varð í 8. sæti í sama hlaupi á 11,06 sek.
Trausti Stefánsson bætti sinn besta árangur í undanrásum í 400m hlaupi, hljóp á 49,45 sek., sem var þriðji besti tími í undanrásum í dag, Trausti átti best 49,82 sek. fyrir hlaupið.
Einar Daði Lárusson keppti í stangarstökki og hástökki í dag. Einar Daði vann til bronsverðlauna í hástökki, stökk 1,95 metra, sem er aðeins einn sm frá hans besta árangri í greininni. Þá jafnaði hann sinn besta árangur í stangarstökki, þegar hann stökk yfir 4,20 metra í stangarstökkinu, þar sem hann varð í 4. sæti.
 
Nú stendur yfir keppni í spjótkasti kvenna þar sem Ásdís Hjálmsdóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir eru á meðal keppenda og í 10.000m hlaupi kvenna þar sem Fríða Rún Þórðardóttir keppir. Þá eru úrslit í 100m hlaupi kvenna ekki ennþá komin inn, þó að því eigi að hafa lokið fyrir nokkru, en þar var Hrafnhild Eir á meðal keppenda.
 
Sjá heimasíðu leikana: www.cyprus2009.org.cy
 

FRÍ Author