Síðasta stóra mót innanhússtímabilsins var Bikarkeppnin sem fór fram um þar síðustu helgi. Síðustu viku nýttu þó margir til þess að keppa áður en undirbúningur fyrir sumarið fer á fullt.
Á þriðjudaginn keppti FH-ingurinn og Íslandsmeistarinn í 400 metra hlaupi, Þórdís Eva Steinsdóttir, á innanfélagsmóti Fjölnis. Þar keppti hún í sinni aðalgrein sem er 400 metra hlaup og hljóp á 55,38 sekúndum sem er hennar ársbesti tími. Því verður gaman að fylgjast með henni þegar í sumar.

Um nýliðna helgi fór svo fram 3. Lenovo mót FH í Kaplakrika. Þar var keppt í fimmtarþraut, sjöþraut og ýmsum einstaklingsgreinum. Þó nokkur fjöldi keppenda var mættur til að keppa á mótinu. María Rún Gunnlaugsdóttir, FH hélt áfram að bæta sig eins og hún hefur gert mikið af á þessu ári. Það var stór áfangi hjá henni þegar hún komst í fyrsta skipti yfir 4.000 stig í fimmtarþraut. Hún er aðeins sú þriðja í frá upphafi til þess að ná þeim áfanga. Hún fékk 4.094 stig og er í öðru sæti afrekalistans. Besti árangur íslenskra kvenna er 4.298 stig og er það Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem á hann.

Ísak Óli Traustason, UMSS, náði einnig góðum árangri í sjöþraut þar sem hann hlaut 5271 stig. Besti árangur hans er 5344 stig frá því á MÍ í fjölþrautum í febrúar. Einnig átti hann flott 60 metra hlaup þar sem hann bætti sig og kom í mark á 7,03 sekúndum. Í 800 metra hlaupi var Sæmundur Ólafsson, ÍR að bæta sinn besta árangur þegar hann hljóp á 1:52,83 mínútum. Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR hljóp 200 metrana á 21,83 sekúndum sem er hans ársbesti tími.
Við minnum á Flickr síðu Frjálsíþróttasambandsins þar sem finna má myndir frá mótum vetrarins.