Íslandsmet hjá Vigdísi í þriðja sinn í sumar

Sleggjukastarinn Vigdís Jónsdóttir úr FH bætti eigið Íslandsmet í sleggjukasti á 9. Origo móti sem fram fór í Kaplakrika í dag. Vigdís kastaði 62,69 metra og bætti eigið Íslandsmet um 11 sentimetra.

Fyrra metið var um tveggja vikna gamalt en Vigdís átti það sjálf og var hún að bæta Íslandsmetið í þriðja sinn í sumar og í tólfta skiptið í heildina.

Vigdís er því greinilega í sínu besta formi og við hvetjum alla til þess að fylgjast með henni og fremsta frjálsíþróttafólki Íslands á Meistaramótinu sem fer fram á Þórsvelli 25. og 26. júlí á Þórsvelli, Akureyri.