Íris Anna Skúladóttir rétt við Íslandsmetið í 3000m hindrunarhlaupi

Íris Anna Skúladóttir Fjölni var nálægt því að bæta Íslandsmet kvenna í 3000m hindrunarhlaupi á 1. Vormóti Breiðabliks, sem fram fór á Kópavogsvelli í kvöld. Íris Anna hljóp á 11:23,87 mín, en Íslandsmet Guðrúnar Báru Skúladóttur HSK er 11:23,14 mín frá árinu 2002. Þessi árangur Írisar er nýtt unglinga (19-20 ára) og ungkvennamet (21-22 ára), en Íris er 19 ára á þessu ári. Þetta var fyrsta keppni Írisar Önnu í þessari grein og lofar árangurinn góðu fyrir framhaldið í sumar.
 
Þá hljóp Sveinn Elías Elíasson Fjölni vel í sínu fyrsta 100m hlaupi í vor, en hann kom í mark á 10,87 sek, en meðvindur var örlítið yfir leyfilegum mörkum, eða 2,1 m/s. Besti árangur Sveins er 10,66 sek. frá sl. ári, svo þessi byrjun er mjög góð hjá honum.
 
Linda Björk Lárusdóttir Breiðabliki sigraði í 100m hlaupi kvenna á 12,75 sek. og í 100m grindahlaupi á 15,50 sek. Björgvin Víkingsson FH sigraði í 110m grindahlaupi karla á 15,45 sek. Stefán Guðmundsson Breiðabliki sigraði í 3000m hindrunarhlaupi á 9:32,47 mín og Sigurbjörn Árni Arngrímsson HSÞ í 800m hlaupi á 1:58,81 mín. Í þrístökk stökk Andri Snær Ólafsson Breiðabliki 12,97 metra.
 
Heildarúrslit eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.
 

FRÍ Author