Af úrslitum dagsins má nefna að Óli Tómas Freysson úr FH reyndist fljótastur allra en hann kom í mark á 7 sekúndum sléttum í 60 metra spretthlaupi. Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr ÍR vann í kvennaflokki á 7,86 sekúndum en hún varð einnig í 2. sæti í langstökkskeppni þar sem Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr USÚ vann sigur með 5,98 metra stökki.
Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA varð Íslandsmeistari í 400 metra hlaupi karla á 50,47 sekúndum og Stefanía Valdimarsdóttir úr Breiðabliki í flokki kvenna á 57,02 sekúndum.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni vann kúluvarpskeppnina með því að varpa kúlunni 13,90 metra og varð í 2. sæti í hástökki. Þar vann Helga Þráinsdóttir en báðar stukku yfir 1,64 metra.
Óðinn Björn Þorsteinsson úr FH varð Íslandsmeistari í kúluvarpi en hann varpaði kúlunni 18,31 metra. FH vann þrefaldan sigur í kúluvarpi karla.
Þá var Kristinn Torfason úr FH örfáum sentímetrum frá Íslandsmeti sínu í þrístökki en hann vann með 15,23 metra stökki.