ÍR með flesta meistaratitla á MÍ um helgina

Um helgina fór fram MÍ innanhúss. Alls voru þar krýndir 26 Íslandsmeistarar, þar af 12 úr ÍR, 5 úr FH og 3 úr Breiðabliki.

Flesta titla vann Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR en hann sigraði í 200m og 400m hlaupum auk þess að leiða sína sveit til sigurs í 4*200m boðhlaupi. Þrír aðrir íþróttamenn unnu tvo titla. Það eru þau María Rún Gunnlaugsdóttir í langstökki og 60m grindahlaupi, Bjartmar Örnuson í 800 og 3000m hlaupum og Andrea Kolbeinsdóttir í 1500 og 3000m hlaupum.

ÍR-ingar unnu til flestra stiga í keppni félaga og eru því Íslandsmeistarar í frjálsum innanhúss með 32.055 stig, fast á eftir fylgdi lið FH með 27.426 stig, þriðju urðu Breiðabliksmenn með 17.927. Stigin eru samanlögð afreksstig sex fyrstu í hverri grein.

Heildar úrslit í stigakeppninni má sjá hér, yfirlit yfir fjölda titla má sjá hér, yfirlit yfir bætingar má sjá hér, þar trónir á toppnum stúlknamet Ernu Sóleyjar Gunnarsdóttur í 16-17 ára flokki í kúluvarpi kvenna. Síðast en ekki síst má sjá myndir Gunnlaugs Júlíussonar á myndasíðu Ármennning frá keppni sunnudagsins hér.

Úrslit fyrri dags voru rakin í hér á síðunni, í frétt sem sjá má hér. Að neðan má sjá frekari samantekt á úrslitum seinni dags keppninnar.

Ívar Kristinn Jasonarson ÍR sigraði í 200 m hlaupi á 22,08s Guðmundur Ágúst Thoroddsen Aftureldingu varð annar á 22,52s en hljóp í undankeppni á 22,51s sem er bæting hjá honum.  Gunnar Eyjólfsson UFA varð 3. á 22,90s sem er bæting hjá honum.

Bjartmar Örnuson ÍBA sigraði í 800 m hlaupi á 1 mín. 56,16s, en Trausti Þór Þorsteins Ármanni varð annar á 1:57,28 mín. Daði Arnarson Fjölni varð síðan þriðji á 1:57,37 mín., sem er hans ársbesti árangur.

Arnar Pétursson ÍR sigraði í 3000 m hlaupinu á 8:51,63 mín. en athygli vakti að hann hljóp berfættur. Birkir Einar Gunnlaugsson Fjölni varð annar á 9:16,06 mín. og þriði á persónulegu meti varð Þorólfur Ingi Þórsson ÍR á tímanum 9:18,37 mín.

Ísak Óli Traustason UMSS sigraði í 60 m grindarhlaupi á 8,50s, en hann hljóp í undankeppni á 8,40s Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki varð annar á 8,52s sem er hans besti árangur í greininni. Guðmundur Karl Úlfarsson Ármanni varð 3. á 8,84s sem er einnig bæting hjá honum.

Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðabliki sigraði í hástökki með 1,91 m en Örn Davíðsson FH var annar með 1,88 m. Blikinn Bjarki Viðar Kristjánsson var 3. með 1,85 m.

Þorsteinn Ingvarsson ÍR sigraði í langstökki með lokastökki sínu eftir hörkuspennandi keppni við Kristinn Torfason FH sem hafði forystu lengst af, en hann stökk 7,39 m að þessu sinni. Ísak Óli Traustason var 3. með 7,13 m sem bæting hjá honum.

Í hörkuspennandi 4×200 m boðhlaupi karla komu ÍR-ingar fyrstir í mark eftir góðan endasprett Ívars Kristins á 1:30,48 mín., en sveit Breiðabliks var önnur á 1:31,46 mín. Fjölnismenn urðu í 3. sæti á 1:32,07 min.

Mynd að ofan: Ívar Kristinn kemur í mark fyrst í 4*200m boðhlaupi

Tiana Ósk Withworh ÍR sigraði 200 m hlaupið nokkuð sannfærandi, en hún kom í mark á 24,97s Vilhelmína Þór Óskarsdóttir Fjölni var önnur á 26,36s og þriðja varð Sara Hlín Jóhannsdóttir Breiðabliki á nýju persónulegu meti, 26,64s

María Rún Gunnlaugsdóttir sigraði sína aðra einstaklingsgrein, 60m grindahlaup á 8,97s, þar dugðu ekki til bætingar Irmu Gunnarsdóttur (9,04s) og Guðbjargar Bjarkadóttur (9,15s).

Mynd að ofan: María Rún kemur fyrst í mark í 60m grindahlaupi

Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir sigraði nokkuð óvænt með miklum endaspretti í 800 m hlaupi á 2:22,72 mín., en stöllur hennar í ÍR komu í 2. og 3. sæti, þær Ingibjörg Sigurðardóttir á 2:23,08 mín. og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir á nýju persónulegu meti, 2:27,49 mín.

Andrea Kolbeinsdóttir ÍR sigraði á sínum ársbesta árangri í 3.000 m hlaupinu 10:18,22 mín. og í öðru sæti varð félagi hennar úr ÍR, Elín Edda Sigurðardóttir á 10:38,46 mín. Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni varð síðan þriðja á 10:43,56 mín.

ÍR sigraði nokkuð sannfærandi í 4×200 m boðhlaupi kvenna á 1:43,54 mín., en í öðru sæti var sveit Breiðabliks á 1:46,05 mín., eftir mikla keppni við sveit FH sem kom í mark á 1:46,06 mín.