Þrír íslenskir hlauparar munu keppa fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem fer fram í Valencia á Spáni á laugardaginn. Þetta eru þau Arnar Pétursson ÍR, Elín Edda Sigurðardóttir ÍR og Andrea Kolbeinsdóttir ÍR.
Arnar Pétursson er að taka þátt í mótinu í þriðja sinn en hann hljóp á sínum besta tíma á þessu móti fyrir tveimur árum er hann hafnaði í 67. á tímanum 1:08:02 klst. Hann freistar þess að bæta sinn besta árangur í hlaupinu um helgina. Heimsmeistaramótið er liður í undirbúningi Arnars fyrir Hamborgarmaraþonið sem fer fram í lok apríl.
Andrea Kolbeinsdóttir sem er aðeins 19 ára gömul er að taka þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti og verður spennandi að sjá hvernig þessari ungu og efnilegu hlaupakonu mun ganga. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Andrea skipað sé fastan sess sem ein fremsta hlaupakona landsins. Andrea hljóp gríðarlega vel í hálfu maraþoni í haustmaraþoninu og hljóp hún á tímanum 1:22:34 klst. og bætti hún sinn fyrri árangur um rúmar 10 mínútur í því hlaupi.
Elín Edda Sigurðardóttir er einnig að taka þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti en hún varð Íslandsmeistari í hálfu maraþoni síðasta sumar þegar hún kom fyrst kvenna í mark í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á tímanum 1:21:25 klst. Elín Edda er nokkuð ný í hlaupunum en hún byrjaði að æfa hlaup að alvöru fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Hún hefur tekið stórstigum framförum og er hún nú ein besta hlaupakona landsins.
Tímasetning hlaupsins í Valencia á laugardag er nokkuð óvenjuleg þar sem hlaupið verður að kvöldi til, en ekki í morgunsárið. Konurnar hlaupa af stað klukkan 17:05 að staðartíma en karlarnir tæpum hálftíma síðar. Búist er við að yfir 300 hlauparar frá 87 löndum taki þátt í mótinu.
Einnig munu fleiri íslenskir hlauparar keppa í hálfu maraþoni í Valencia um helgina, en þeir munu taka þátt í almenningshlaupi sem fer fram samhliða heimsmeistaramótinu. Íslensku keppendurnir eru þeir Vilhjálmur Þór Svansson ÍR, Vignir Már Lýðsson ÍR og Þórólfur Ingi Þórsson ÍR.
Hlaupakonan Martha Ernstdóttir er þjálfari hópsins.
Frjálsíþróttasamband Íslands óskar öllum íslensku keppendunum góðs gengis í hlaupinu!