Helga Margrét með glæsilegt íslandsmet í sjöþraut, 5878 stig

Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni hefur nú lokið keppni í Kaldo. Hún hljóp 800m á 2:16,42 mín og bætti sinn besta árangur í þeirri grein og fékk 873 stig. Samtals náði Helga því 5878 stigum í sjöþrautinni og sett glæsilegt nýtt íslandsmet, en gamla metið var 5721 stig.
Helga hafnaði í þriðja sæti í keppninni, Ólympíumeistarinn Nataliya Dobrynska frá Úkraníu sigraði með 6249 stig og Yuliya Tarasova frá Úzbekistan varð í öðru sæti með 5916 stig. Helga sigraði í unglingaflokki 19 ára og yngri með yfirburðum á mótinu.
 
Helga bætti því metið um 157 stig og var aðeins 22 stigum frá lágmarki á Heimsmeistaramótið í Berlín.
Helga Margrét fær eitt tækifæri í viðbót til að ná lágmarki inn á HM, en það er á EM unglinga, sem fram fer í Novi-Sad í Serbíu 23.-26. júlí nk. Helga Margrét náði með þessum árangri 1. sæti á heimslista unglinga 19 ára og yngri í sjöþraut. Helga var í 2. sæti á heimslistanum, en fór upp fyrir Vanessu Spinolu frá Brasilíu (5763 stig).
Í þriðja sæti á heimslista unglinga er Carolin Schäfer frá Þýskalandi (5691 stig).
 
Helga Margrét er aðeins 17 ára, en hún verður ekki 18 ára fyrr en í október og á því enn eitt ár eftir í flokki 19 ára og yngri og getur því keppt á HM unglinga á næsta ári í þeim aldursflokki. Þá er Helga komin í 31. sæti á heimslista kvenna, en næsta kona fyrir ofan hana er Jessica Samuelsson frá Svíþjóð með 5879 stig og næsta fyrir neðan hana er Ida Marcussen frá Noregi með 5877 stig. Þessar þrjár eru nú fremstu sjöþrautarkonur á Norðurlöndum, en Jessica er 24 ára og Ida er 22 ára.
 
Einar Daði Lárusson ÍR er einnig á fljúgandi siglingu í tugþraut unglinga 19 ára og yngri í Klado. Einar er búinn að bæta sinn besta árangur í samtals fimm greinum og jafna í einni í fyrstu níu greinum þrautarinnar. Einar hljóp 110m grind á 14,59s í fyrstu grein dagsins, kastaði kringlunni 41,70m, stökk 4,20m í stangarstökki og kastaði spjótinu 49,17 metra, sem var enn ein bætingin hjá Einari. Þá á hann aðeins eftir að hlaupa 1500m, en ef hann hleypur þá á um 4:50 mín þá fer hann í um 7300 stig og nær lágmarki fyrir EM unglinga 19 ára og yngri, en það er 7000 stig.
Þá á hann einnig möguleika á að bæta unglingamet Sveins Elíasar Elíasarsonar, en það er 7272 stig, sett á EM 19 ára og yngri í Hengelo fyrir tveimur árum.

FRÍ Author