Guðni Valur örugglega í úrslit á EM 20-22 ára

Guðni Valur Guðnason úr ÍR kastaði 56,57m í A-hópi forkeppni kringlukastsins á EM 20-22 ára núna í morgun og hafnaði í 2 sætinu þar.  Til að komast beint í úrslit segja reglurnar að kasta þurfi 57,50m en ef færri en 12 kastarar ná þeim árangri fara þeir 12 áfram sem lengst kasta. Það var því nokkur spenna að bíða eftir úrslitum B-hópsins þar sem við gátum ekki fagnað fyrr en hann kláraðist. Seinni riðillinn var að klárast rétt í þessu og það voru aðeins 4 kastarar sem náðu að fara beint áfram með að kasta yfir 57,50 m og í heildarniðurstöðu morgunsins endar Guðni Valur í 6 sæti sem er frábær árangur. Úrslitin fara fram á morgun sunnudag kl. 12.30 og ljóst að Guðni Valur á góða möguleika þar.  Fyrirkomulagið í úrslitunum er þannig að kastararnir 12 fá allir 3 köst en svo fá 8 bestu 3 köst að auki og kasta þá í öfugri röð miðað við niðurstöðuna eftir fyrstu 3 köstin. Sá sem átti semsagt lengsta kastið eftir 3 umferðir kastar alltaf síðastur til loka keppninnar. Smáflækja en gott að vita.

Áfram Guðni!