Guðni hefur lokið keppni

Guðni Valur Guðnason keppti í undankeppni í kringlukasti á Ólympíuleikunum í nótt. Kasta þurfti 66,00 metra til að tryggja sæti beint í úrslitum og reyndust öll þrjú köst hans ógild. Fyrsta kast fór í netið, annað út fyrir geira og það þriðja var rétt rúmlega 55 metrar og ákvað Guðni ekki að láta mæla það. Til þess að komast í úrslit hefði hann þurft að kasta yfir 62,93 metra. Lengsta kastið í undankeppninni átti lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar, Svíinn Daniel Ståhl með kast upp á 66,12 metra.