Guðlaug varaformaður og Kári Steinn gjaldkeri í nýrri stjórn FRÍ

Á fyrsta fundi stjórnar FRÍ í liðinni viku skipti stjórn með sér verkum. Helstu tíðindi eru þau að Guðlaug Baldvinsdóttir sem verið hefur gjaldkeri FRÍ undanfarin tvö tímabil starfstímabil tekur nú að sér hlutverk varaformanns. Við hlutverki gjaldkera tekur hlauparinn og Ólympíufarinn Kári Steinn Karlsson. Gunnar Svavarsson gegnir áfram hlutverki ritara og Aðalbjörg Hafsteinsdóttir, sem kom ný inn í aðalstjórn FRÍ á nýliðnu þingi, gegnir hlutverki meðstjórnanda. Freyr Ólafsson er áfram formaður, líkt og áður hefur komið fram, en um embætti formanns er kosið á þingi.

Í tilfelli FRÍ tekur varastjórn mjög virkan þátt í verkefnum stjórnar. Það kemur sér því vel hve vel hún er mönnuð á þessu nýhafna starfstímabili. Varastjórnina skipa Björgvin Víkingsson, Íslandsmethafi og nýráðinn forstjóri Ríkiskaupa, Eiríkur Mörk Valsson, sem jafnframt er formaður mótanefndar, Fjóla Signý Hannesdóttir, fráfarandi varaformaður FRÍ, Kristín Birna Ólafsdóttir-Johnson, fjölþrautarkempa með meiru og Björg Ágústsdóttir, sem samhliða varastjórnarstörfum gegnir hlutverki bæjarstjóra í Grundarfirði.