Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í gærkvöldi þar sem veittar voru ýmsar viðurkenningar fyrir árið 2019. Stærstu verðlaunin voru val á frjálsíþróttafólki ársins þar sem spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir var valin frjálsíþróttakona ársins og sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttakarl ársins.
Guðbjörg Jóna átti frábært ár þar sem hún bætti Íslandsmet kvenna í bæði 100 og 200 metra spretthlaupi og jafnaði Íslandsmet Tiönu Óskar Whitworth í 60 metra hlaupi. Hún var hluti af 4×200 metra boðhlaupssvetinni sem setti nýtt Íslandsmet á Reykjavík International Games. Einnig setti hún nokkur aldursflokkamet, bæði sem einstaklingur og í boðhlaupi. Guðbjörg keppti á EM U20 þar sem hún varð fjórða í 200 metra hlaupi og var hluti af íslenska Evrópubikarliðinu sem kom sér upp um deild í sumar. Á uppskeruhátíðinni fékk Guðbjörg einnig Jónsbikarinn fyrir besta spretthlaupsafrekið og var valinn stúlka ársins 19 ára og yngri.
Guðbjörg Jóna
Hilmar Örn bætti Íslandsmetið í sleggjukasti á árinu með því að kasta 75,26 metra. Hilmar keppir fyrir University of Virginia og varð ACC svæðismeistari fjórða árið í röð og sá fyrsti í sögunni til þess að ná þeim áfanga. Hann sigraði svo Austurdeildina og var þriðji á bandaríska háskólameistaramótinu. Hilmar var hluti af íslenska Evrópubikarliðinu sem kom sér upp um deild í sumar og svo er hann efstur Íslendinga á heimslistanum eða í 41. sæti í sinni grein. Á uppskeruhátíðnni var Hilmar einnig valinn kastari ársins í karlaflokki.

Hér má sjá heildarlista yfir viðurkenningar ársins 2019
- Hópur ársins: Landslið Íslands á Evrópubikar
- Nefnd ársins: Unglinganefnd
- Þjálfari ársins: Brynjar Gunnarsson
- Piltur ársins 19 ára og yngri: Kristján Viggó Sigfinnsson
- Stúlka ársins 19 ára og yngri: Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
- Hvatningarverðlaun unglingaþjálfara: Þjálfarar Ármanns 19 ára og yngri
- Öldungur ársins í karlaflokki: Ari Bragi Kárason
- Öldungur ársins í kvennaflokki: Árný Heiðarsdóttir
- Götuhlaupari ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
- Götuhlaupari ársins í kvennaflokki: Elín Edda Sigurðardóttir
- Utanvegahlaupari ársins í karlaflokki: Þorbergur Ingi Jónsson
- Utanvegahlaupari ársins í kvennaflokki: Anna Berglind Pálmadóttir
- Langhlaupari ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
- Langhlaupari ársins í kvennaflokki: Elín Edda Sigurðardóttir
- Stigahæsta afrek: Guðni Valur Guðnason
- Jónsbikar: Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
- Stökkvari ársins í kvennaflokki: Hafdís Sigurðardóttir
- Stökkvari ársins í karlaflokki: Ísak Óli Traustason
- Millivegalengarhlaupari ársins í kvennaflokki: Aníta Hinriksdóttir
- Millivegalengdarhlaupi ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
- Kastari ársins í kvennaflokki: Ásdís Hjálmsdóttir
- Kastari ársins í karlaflokki: Hilmar Örn Jónsson
- Fjölþrautakona ársins: María Rún Gunnlaugsdóttir
- Fjölþrautakarl ársins: Benjamín Jóhann Johnsen
- Frjálsíþróttakraftur: Arnar Pétursson
- Óvæntasta afrek ársins: Ásdís Hjálmsdóttir
- Frjálsíþróttakarl ársins: Hilmar Örn Jónsson
- Frjálsíþróttakona ársins: Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
