
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð í kvöld Ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikum ungmenna í Argentínu. Guðbjörg bætti í leiðinni sitt eigið Íslandsmet.
Guðbjörg kom í mark á tímanum 23,47 sekúndum, meðvindur var 1,9 m/s.
Keppnin í frjálsum er með nýstárlegu sniði því samanlagður árangur í tveim umferðum gildir til sigurs á mótinu. Guðbjörg kom önnur í mark í seinni umferðinni, aðeins 0,02 sekúndum eftir þeirri fyrstu. Hún sigraði hins vegar fyrri umferðina með miklum yfirburðum.
Guðbjörg setti Íslandsmet í fyrri umferðinni þegar hún hljóp á 23,55 sekúndum og bætti það því aftur í þessu hlaupi.
Guðbjörg er að bæta enn einum titlinum í safnið á þessu ári hefur hún meðal annars orðið Evrópumeistari í 100 metra spretthlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára sem og Íslandsmeistari í 200 metra hlaupi kvenna.