Guðbjörg Jóna og Birna Kristín komnar í úrslit á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR og Birna Kristín Kristjánsdóttir Breiðabliki kepptu í gær á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar.

Guðbjörg Jóna keppti í 100 m hlaupi. Hún hljóp á tímanum 11,99 sek (-0,1 m/s) og hafnaði í 2. sæti í sínum riðli af 8 keppendum og 4. sæti í heildina af 16 keppendum og komst beint áfram í úrslit. Glæsileg bæting hjá henni en hún átti áður best 12,05 sek.

Birna Kristín keppti í langstökki. Hún stökk 5,46 m (+0,9 m/s) og er komin áfram í úrslit á mótinu. Glæsilega gert hjá henni.

Hera Rán Örlygsdóttir USVH keppti í sleggjukasti í gær en rigning gerði henni erfitt fyrir og niðurstaðan því þrjú ógild köst. Þetta var frábær reynsla fyrir hana samt sem áður og vonandi sjáum við hana áfram á stórmótum á næstu árum.

Birna Kristín keppir í úrslitum í langstökki í dag kl. 14:45 á ísl. tíma og Guðbjörg Jóna keppir í úrslitum í 100 m hlaupi í dag kl. 15:55 á ísl. tíma.

 

Úrslit frá mótinu má finna hér.

Hægt er að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu hér.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar stelpunum góðs gengis í dag!